Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

erfðalög og erfðafjárskattur.

969. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að skattkerfi okkar sé sanngjarnt og skilvirkt. Einn er sá skattur sem ég leyfi mér að fullyrða að mörgum þyki verulega ósanngjarn og það er erfðafjárskattur. Erfðalögin eru frá árinu 1962 og er að mínu mati þörf á endurskoðun þeirra laga, enda hefur samfélagið tekið miklum breytingum síðan þá. Mun meira er um samsettar fjölskyldur nú en fyrir 60 árum. Fjölskyldugerðin getur í dag oft og tíðum verið mun flóknari en hún var. Sjónarmið er varða erfðir hafa tekið breytingum. Eins hefur efnahagur fólks vænkast verulega og fólk vill fá að ráða meiru um sína fjármuni.

Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir legg ég til að foreldri geti arfleitt barn sitt að allt að 10 milljónum skattfrjálst á tíu ára tímabili, með öðrum orðum að foreldri geti fyrirframgreitt arf til barns án þess að ríkið hagnist á þeim gjörningi. Í frumvarpinu er verið að leggja áherslu á að það sé ekki vandkvæðum búið að t.d. foreldrar geti aðstoðað börn sín, t.d. við kaup á fasteign, eða stutt þau fjárhagslega til náms. Það getur verið mjög erfitt fyrir ungt fólk að komast í gegnum greiðslumat bankanna og mjög oft stoppar það á að eigið fé þessa unga fólks er ekki nægilegt. Foreldrar sem hafa tök á að aðstoða börn sín eiga ekki að þurfa að greiða skatt til ríkisins af slíkum fjárveitingum.

Nokkuð hefur borið á að foreldrar hafi aðstoðað börn sín við kaup á fasteignum og til þess hafa aðallega verið tvær leiðir, annars vegar að lána börnum sínum fjármuni og hins vegar að greiða þeim fyrirframgreiddan arf. Með láni er verið að skuldsetja börnin og er það ekki til þess líklegt að virka sem sú aðstoð sem leitast er við að veita. Með fyrirframgreiddum arfi er ríkisvaldið að taka til sín erfðafjárskatt af afhentum fjármunum sem í mörgum tilvikum hafa verið skattlagðir nokkrum sinnum áður. Það að ætla að aðstoða börn sín, t.d. við kaup á fasteign, er í eðli sínu eðlileg athöfn foreldra en ríkið á ekki að hafa beinan hag af slíkri aðgerð. Með tillögu um breytingu á erfðalögum, sem heimilar afhendingu foreldra á fjármunum til barna sinna, er lagður grunnur að því sem þekkist í mörgum Evrópulöndum, að fjármunir séu færðir á milli kynslóða án aðkomu ríkisvaldsins.

Nú ætla ég að biðja forseta um leyfi því að ég gleymdi hluta af ræðu minni. Mig langaði nefnilega að lesa póst, sem ég hafði látið liggja á borðinu mínu í þingsal, sem ég fékk sendan frá einstaklingi úti í bæ sem hafði heyrt af þessu frumvarpi þegar það var lagt fram í lok mars. Með leyfi forseta:

„Sæl og til hamingju með þingmálið sem Morgunblaðið sagði frá í dag. Ég og konan mín höfum reynslu af því að hjálpa báðum sonum okkar við íbúðarkaup með því að sjá um útborgun íbúðanna þeirra og þinglýsa síðan upphæðinni sem eignarhlutum þeirra. Annar varð strax eigandi 17% eignarhlutar á móti okkur hjónum, hinn 27%. Misdýrar eignir en aðstoðin við þá jafn mikil í krónum talið. Við borguðum þinglýsingarkostnaðinn og hefðum auðvitað viljað að þeir peningar hefðu frekar aukið eignarhlut sonanna en ratað í ríkissjóð. Þegar við ákváðum að nota spariféð okkar í þetta spurði ég endurskoðandann minn hvernig það yrði best gert, en hann sá ekkert annað en að við lánuðum strákunum. Ég fann sjálfur upp á fyrirframgreiddum arfi sem reyndist margfalt betra. Við eignuðumst sem sagt tvær íbúðir, ég og konan mín, og tókum lífeyrissjóðslán til að borga það sem út af stóð, kaupverð mínus innborgun. Konan mín fjármagnaði íbúð eldri sonarins og hana eigum við enn á móti honum en hann býr þar með kærustunni og rekur hana alveg, plús það að borga af láninu í gegnum móður sína. Ég tók lífeyrissjóðslán til að fjármagna íbúð yngri sonarins en hann keypti okkar eignarhlut og lánið er uppgreitt. Það sem gerðist, og það er kjarni máls í minni sögu, er að drengurinn fékk lán til að kaupa okkar hlut orðalaust því að það skipti öllu máli að hann væri þegar orðinn þinglýstur meðeigandi að eigninni. Reyndar hefði það sama gilt þótt eignarhluturinn hefði verið minni. Þinglýst eignarhald telur, þótt ekki sé mikið, ef menn standast kröfur um skil á afborgunum á annað borð. Afborganir lána í báðum tilvikum eru langt neðan við það sem synir okkar þyrftu að borga í leigu fyrir sambærilegar íbúðir.“

Þetta var reynslusaga manns utan úr bæ sem lauk þessum pósti með orðunum:

„Við erum ekki hátekjufólk. Konan mín var t.d. ríkisstarfsmaður í 80% starfi á seinni hluta starfsferilsins. Við lifum ekki hátt og höfum alltaf reynt að leggja fyrir. Sama gerir fjöldinn allur af venjulegu fólki allt um kring.“

Í fjölmörgum nágrannaríkjum okkar hefur erfða- og gjafaskattur verið lagður niður. Þannig felldu Norðmenn niður bæði erfða- og gjafaskatt 1. janúar árið 2014 og Svíar afnámu slíkan skatt árið 2005. Danmörk skattleggur gjafir eftir 69.500 danskar krónur. Í Finnlandi er gjöf skattfrjáls að 600.000, en þar er jafnframt að finna heimild fyrir því að framfærsla sem gjöf sé skattfrjáls, ásamt kostnaði við menntun einstaklings, allt að 40.000 evrum, eða um 6 millj. kr. á núverandi gengi.

Þetta frumvarp sem hér er lagt fram um breytingu á erfðalögum er því vel í samræmi við það sem annars staðar þekkist í nágrannalöndum okkar. Má einnig benda á að í Þýskalandi getur hvort foreldri fyrir sig afhent hverju barni sínu allt að 400.000 evrum á hverju tíu ára tímabili. Þannig geta báðir foreldrar afhent einu og sama barninu allt að 800.000 evrum, eða sem nemur um 120 milljónum miðað við gengi krónunnar gagnvart evru á þeim tíma þegar frumvarpið var lagt fram. Þessi fjárhæð getur verið afhent í einu lagi eða í fleiri afhendingum. Þegar hámarksfjárhæðinni er náð byrjar tíminn að telja aftur og að tíu árum liðnum opnast fyrir möguleika á ný að endurtaka.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir endurtekningu á tímabili, heldur er gert ráð fyrir að afhending geti farið fram og til þess hefur arfláti allt að tíu ár. Nýti hann ekki fjármunina að fullu fellur það niður sem ekki er nýtt. Rétt væri að vísitölutryggja fjárhæðina svo að hún haldi verðmæti sínu byggt á lánskjaravísitölu, frá þeim tíma þegar lagaákvæðið var samþykkt.

Gert er ráð fyrir að sýslumannsembættið haldi utan um afhendingar af þessum toga til að tryggja að rétt sé með farið. Þessi afhending kemur ekki í veg fyrir greiðslu á fyrirframgreiddum arfi. Í dæmaskyni, ef foreldrar ákveða að afhenda 100 millj. kr. til erfingja leiðir það til þess að 10 millj. kr. eru afhentar í samræmi við þær breytingar sem hér eru lagðar til og síðan væri gerð erfðafjárskýrsla um þá fjármuni sem eru umfram 10 millj. kr. og af þeim greiddur erfðafjárskattur líkt og tíðkast. Ekki er gert ráð fyrir því að fjármunir sem afhentir eru með þessum hætti komi til frádráttar við endanlegt uppgjör dánarbús eins og gert er með fyrirframgreiddan arf.

Þá er lögð til breyting á lögum um erfðafjárskatt á þá leið að allur vafi er tekinn af um skattleysi greiðslna skv. 1. gr. frumvarpsins.

Í dag búa Íslendingar við mjög breytt fjölskyldumynstur miðað við það sem áður þekktist. Foreldrar eiga að ráða fé sínu og hvernig þeir telja því best varið án þess að ríkið hafi hag af því. Þessi leið sem hér er kynnt er skýr, hún er framkvæmanleg og hún er einföld. Eftirlit verður til staðar og það er allt uppi á borðum.

Forseti. Ég stend ekki ein að þessu frumvarpi en meðflutningsmenn mínir eru Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi, enda ekki flókið frumvarp og óverulegur kostnaður verður til vegna þess. Að 1. umr. lokinni legg ég til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég bind vonir við að Alþingi taki vel í þetta frumvarp og það komi til með að vekja umræðu á meðal landsmanna um erfðamál.