Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

myndlistarstefna til 2030.

690. mál
[18:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Friðrik Friðrikssyni kærlega fyrir sína ræðu og lýsa mikilli ánægju með þetta mál. Þessi stefna, sem er sú fyrsta sinnar tegundar og tekur til myndlistar, er lofsverð. Ég er afar sáttur við þá stefnu sem hér bíður endanlegrar afgreiðslu Alþingis á næstu dögum er varðar tónlistarstefnu, tónlistarmiðstöð. Kvikmyndamálin hafa verið færð til betri vegar. Í báðum tilfellum hafa verið innbyggðir hvatar til að auðvelda framleiðslu á stærri verkum, bæði hljóðritum og kvikmyndum. Af þeirri einni og hálfri blaðsíðu sem liggur hér til grundvallar er hálfri blaðsíðu varið til umfjöllunar um falsanir á verkum og það ekki að ástæðulausu. Gott og gilt. Ég hefði kosið hálfa blaðsíðu til viðbótar um einhvers konar hvata sem örva myndu fyrirtæki og einstaklinga til þess hreinlega að kaupa íslenska myndlist. Þar er hægt að leita fyrirmynda í öðrum löndum, m.a. Bandaríkjunum. Við eigum tiltölulega frumstæð lög um einhvers konar skattfrádrátt, ég man ekki hvort það er 1% en það var til skamms tíma 0,25%, Ágúst Einarsson barðist fyrir hækkun þess í 0,5% og eitthvað hefur því miðað áfram. Ég hefði talið að í þessu máli, í þessari myndlistarstefnuvinnu, mættum við örva fyrirtæki og einstaklinga til að kaupa íslenska myndlist og örva þar með ungt hæfileikafólk til að gefa sig að þessu starfi þar sem tekjugrundvöllur er almennt mjög ótryggur. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála þessari hugmynd?