Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

sala upprunavottorða.

[15:22]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það sem hv. þingmaður er að vísa til sem kalla mætti kapítalíska snilli er bara uppgötvun Evrópusambandsins, það er bara þannig. Hv. þingmaður er, held ég, búinn að skipta um skoðun. Nú er þetta orðið alveg snilli, enda kemur þetta frá Evrópusambandinu. En í mínum huga er þetta bara þannig að þegar ég tók við því embætti sem ég gegni í dag þá setti ég fljótlega af stað vinnu til að skoða þætti þessa máls því að í það minnsta hafa íslensk orkufyrirtæki tekið þátt í þessu á grundvelli EES-samningsins. Það er umræða um þetta í Noregi eins og hér.

Hv. þingmaður fer yfir hluti sem mér finnst vera frekar augljósir. Mér finnst þetta ekki vera einfalt mál en þarna eru miklir hagsmunir undir. Það sem ég hef gert er að ég setti strax, eða fljótlega, á vinnu út af þessu þannig að við getum tekið þessa umræðu út frá staðreyndum og þá að meta þá hagsmuni sem þarna eru undir. Ég er ekkert viss um að þetta sé besta hugmynd sem hefur komið fram og það eru augljóslega ákveðnar hættur fyrir okkur Íslendinga þegar að þessu kemur. Þegar þetta mál kemur upp, sem ég hafði ekki neina vitneskju um, var það mitt verk að kalla eftir upplýsingum um stöðu málsins. Það er ákveðin þróun á því, þ.e. menn eru bæði að kortleggja þetta og sjá hvað þetta þýðir fyrir íslenska orkuframleiðendur og fyrir okkur. Eftir stendur að við þurfum að ræða upprunaábyrgðir. Það er bara þannig. Hv. þingmaður verður að kenna réttum aðilum um þetta. (Forseti hringir.) Þetta er ekki kapítalisminn, þetta er Evrópusambandið.