Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[17:04]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér leggjum við fram frumvarp sem einfaldar skipulagsferla, setur hagsmuni almennings í forgrunn og tryggir leiðir til að klára þjóðhagslega mikilvæga uppbyggingu innviða þegar og ef til ágreinings kemur.

Núverandi ferlar varðandi skipulag taka engum breytingum. Almenningur hefur enn sömu tækifæri og leiðir að aðkomu eins og tíðkast hefur í hefðbundnum skipulagsmálum. Hér er eingöngu innleitt ferli sem farið er eftir ef til ágreinings kemur um þarfa uppbyggingu mikilvægra innviða.

Eftir góða samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Landsnet, Skipulagsstofnun og innviðaráðuneyti taldi meiri hlutinn rétt að leggja til breytingar á frumvarpinu. Þær varða skipulag raflína og framkvæmdaleyfi sem undirstrikar að lagning raflína fari fram á skipulagsstigi.

Einnig er lagt til að umhverfismati framkvæmda þurfi ekki að vera lokið svo að raflínuskipulag fari í kynningar- og afgreiðsluferli. Breytingin felur einnig í sér skipan raflínunefndar og aukna aðkomu sveitarfélaga, sem nú geta óskað eftir því að raflínunefnd verði skipuð ásamt framkvæmdaraðila.

Auk þessa er lagt til að ráðherra hafi beina aðkomu að ágreiningsmálum sem varða þjóðhagslega mikilvæga innviði. (Forseti hringir.) Eftir situr frumvarp sem meiri sátt ríkir um.

Ég vil nýta tækifærið og þakka félögum mínum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd kærlega fyrir samvinnuna.