153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

Stytting vinnuvikunnar.

[15:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það eru 50 ár síðan við fengum átta klukkustunda vinnudag á Íslandi. Framleiðni hefur aukist alveg gríðarlega mikið á þeim tíma en vinnutími fólks hefur ekkert minnkað í samræmi við það. Ef eitthvað er þá vinna margir mun meira bara til að ná endum saman, en við ættum í raun að vera að vinna miklu minna, ekki meira. Í kjölfar Covid hefur okkur verið kippt inn í framtíðina á ógnarhraða; atvinnuhættir hafa breyst til frambúðar og þróunin á aðeins eftir að verða hraðari með aukinni sjálfvirkni- og alþjóðavæðingu. Fólk um víða veröld er farið að hugsa hlutina upp á nýtt og stytting vinnuvikunnar á stóran þátt í þeirri hugsun.

Stytting vinnuvikunnar hefur keðjuverkandi áhrif. Fólk upplifir bætta líkamlega og andlega heilsu, minni streitu, meiri orku, meira úthald og meiri tíma. Umhverfisvitund og -vernd eykst með auknum tíma og sveigjanleika. Fólk hreyfir sig meira, borðar hollari mat, lýðræðisvitund og -þátttaka eykst og svo njóta fjölskyldur og börn sérstaklega góðs af styttingunni, af aukinni samveru með foreldrum sínum. Aukinn tími þýðir minni streita og við getum losnað við þessi algengu streitusamskipti sem grafa undan hlátrinum og gleðinni sem létta okkur lífið og tilveruna og styrkja sambönd við okkar nánustu. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Aukin þátttaka í daglegu lífi barnanna okkar er dýrmæt fyrir vellíðan og heilbrigði þeirra og samfélagsins alls til framtíðar.

Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga, þegar við skoðum kosti og galla styttingar vinnuvikunnar, að það erum við, fólkið í landinu, sem erum forsenda þess að samfélagið virki og því þurfa vinnumarkaðurinn og hagkerfið að mótast í kringum þarfir okkar en ekki öfugt. Við getum nefnilega ákveðið núna að grípa tækifærin sem tæknivæðingin býður okkur upp á og fagna framtíð þar sem við getum öll öðlast meiri frítíma og aukið frelsi með því að setja fólkið í miðjuna og í kjarnann.