153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

Stytting vinnuvikunnar.

[15:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Stytting vinnuvikunnar er gott verkefni, en svo virðist sem hún hafi því miður verið ferð án fyrirheits, að farið hafi verið af stað án þess að áhrifin hafi verið hugsuð til enda. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu vantar fjármagn til að manna styttinguna. Heilbrigðisstofnanir eru til að mynda að lenda í stökustu vandræðum. Sama má segja um leikskóla, lögregluna og aðra vinnustaði þar sem styttri vinnutími þýðir í raun skert þjónusta án aðgerða á móti. Þrátt fyrir sama sönginn um skort á heilbrigðisstarfsfólki í mörg ár boðar ríkisstjórnin engar lausnir. Hvers vegna var stytting vinnuvikunnar ekki undirbúin með átaki til að fjölga hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraliðum? Árið 2019 var farið í átak til að fjölga kennaranemum. Það skilaði árangri. Vandinn er að það tekur tíma að mennta fólk. Í því ljósi var besti tíminn til að leysa mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins fimm árum fyrir styttingu. Næstbesti tíminn var um leið og umræðan fór af stað. Ef það hefði verið gert væri þessi lausn nú þegar í sjónmáli. Versti tíminn er hins vegar hver einasti dagur sem ríkisstjórnin heldur áfram að fresta slíku átaki.

Þegar styttingin var nýkomin inn í kjarasamninga var því haldið fram að hún hefði engin áhrif á launakostnað stofnana og fyrirtækja. Það áttuðu sig reyndar flestir á því að það stæðist kannski ekki mikla skoðun. Það kom líka á daginn að kostnaðurinn fyrir ríkissjóð hleypur á milljörðum á ári. Kannski gengur í skrifstofustörfum að draga úr viðveru og gera vinnuna skilvirkari, en hún gerir ekki sólarhringsumönnun skilvirkari. Sólarhringsumönnun þarf einfaldlega að vera til staðar allan sólarhringinn. Þess vegna verður að ráðast að rót vandans strax. Stytting vinnuvikunnar er jákvætt skref en það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn gagnvart þeirri staðreynd að hún eykur við mönnunarvanda spítalanna, vanda sem ríkisstjórnin lætur stundum eins og hafi fallið í fang okkar af himnum ofan en sé ekki afleiðing af stefnuleysi og röngum ákvörðunum þessarar ríkisstjórnar og þeirra sem á undan komu.