Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp í sömu erindagerðum og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir: Að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál, þakka fyrir frumkvæðið og lýsa yfir ánægju með þennan þverpólitíska stuðning, sem ekki bara skilar sér í þessu máli heldur í þeim málum sem hér hafa verið borin á borð og rædd í tengslum við stuðning við Úkraínu í þeirra baráttu. Þó að okkur sé tíðrætt um, og það skiptir auðvitað máli, að sá stuðningur sé innan þings, þá skiptir ekki síður máli að finna hvað íslenskur almenningur er almennt einarður í sínum stuðningi og hvað það skilar sér vel fyrir hverju Úkraínubúar eru í raun og veru að berjast. Vissulega eigin landi, eigin frelsi, eigin hagsmunum, en sá skilningur að þar fari saman þeirra hagsmunir og annarra Evrópubúa, evrópskra lýðræðisríkja sem deila sameiginlegum gildum og sýn og hvernig heimurinn virkar best fyrir okkur og framtíðarkynslóðir, er gríðarlega jákvæður og skiptir öllu máli.

Mig langar líka að nefna, sem fulltrúi Íslandsdeildar Alþingis í Norðurlandaráði, að á því ríflega ári sem liðið er frá innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki farið fram sá fundur innan Norðurlandaráðs þar sem þessi mál eru ekki í öndvegi. Við fundum með fulltrúum Eystrasaltsríkjanna í gegnum Eystrasaltsráðið, þar sem Pólland og Þýskaland bætast síðan við. Þar heyrir maður svo glöggt, frá þessum þjóðum sem eru nær ógninni en við, hvað þetta skiptir gríðarlega miklu máli og hversu vel meðvituð öll eru um hvað raunverulega er verið að berjast um, og svo auðvitað í Norðurlandaráði í tengslum við NATO-umsóknir og annað slíkt. Þannig að alls staðar sem við komum ræðum við um velferð, við ræðum um umhverfismál, sem er náttúrlega það nýjasta sem við erum að átta okkur á, hvers lags ofboðsleg hryðjuverk Rússar eru að fremja í því tilliti. Alls staðar skín stuðningurinn í gegn og óttinn við það hvernig þetta getur farið. Ég er ánægð með þá samstöðu í verki sem hér er. Mér finnst mikilvægt að við gætum okkar í okkar framgöngu á því að taka stærri hagsmuni fram yfir minni, hvort sem það er stuðningur eins og sá að greiða hér fyrir færanlegt sjúkrahús sem kostar 1,2 milljarða kr., einhver annar beinn fjárhagsstuðningur, aðstoð við fólk á ýmsa vegu, eða það sem við höfum gert, t.d. með undanþágu til tollfrjáls innflutnings fyrir landbúnaðarvörur frá Úkraínu. Það er stuðningur sem skiptir líka máli. Þó svo að það sé í öllum tilfellum hægt að segja að við gætum verið að gera eitthvað annað í staðinn þá er það bara svo að þetta eru þeir hagsmunir sem standa ekki bara Úkraínu næst heldur okkur líka. Ég treysti því að við höldum áfram á þessari braut þar til við klárum þetta.