Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[15:57]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nýta þetta tækifæri og þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir að vinna vel að þessu máli og koma því hingað í gegnum þingið. Þessi ákvæði varðandi kauprétti til sprotafyrirtækja skipta nýsköpun á Íslandi miklu máli. Við gerum sprotafyrirtækjum kleift í ríkara mæli að laða til sín hæfileikaríkt fólk með því að bjóða því upp á þetta endurgjald með vinnuframlagi sínu. Með þessu geta þá sprotafyrirtæki hvatt starfsfólk til að vinna að markmiðum félagsins og deila áhættu og árangri af framtíðarafrakstri vinnunnar. Þannig að ég fagna verulega þessu skrefi í dag sem var eitt af þeim leiðarljósum sem voru sett á grundvelli nýsköpunarstefnu sem var sett undir fyrrverandi hæstv. nýsköpunarráðherra og kemur svo sem tekjuviðbót fyrir sprotafyrirtæki sem hafa alla jafna ekki fjárhagslega burði til að greiða há laun á sínum fyrstu skrefum þegar þau eru að koma sér af stað.