Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

Innheimtustofnun sveitarfélaga.

896. mál
[17:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Hér er verið að gera breytingar á því hvernig meðlag er innheimt og m.a. verið að breyta nafni laganna úr lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga í lög um innheimtu meðlags o.fl. Í því sambandi langar mig að vekja athygli þingsins og hv. nefndar á galla sem varð í meðförum þingsins á barnalögum, tengt greiðslu á meðlagi.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum barnalaga greiðir Tryggingastofnun ríkisins út meðlag til rétthafa gegn því skilyrði að hann sé búsettur á Íslandi. Móttakendur meðlags fá því ekki greitt meðlag fyrir hönd meðlagsskylds aðila frá Tryggingastofnun ríkisins ef þeir eru búsettir erlendis. Af því leiðir einnig að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir ekki meðlag frá meðlagsskyldum aðilum, þó að þeir séu búsettir á Íslandi, ef réttmætur móttakandi greiðslunnar er búsettur erlendis. Á þessu er þó ein undantekning. Í gildi er Norðurlandasamningur um gagnkvæma innheimtu meðlaga sem leiðir til þess að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir meðlagsgreiðslur frá hinum meðlagsskylda aðila á Íslandi, berist beiðni um það frá viðkomandi Norðurlandaríki.

Í frumvarpi til laga sem urðu að barnalögum, nr. 76/2003, var ekki að finna þetta búsetuskilyrði. Því var hins vegar breytt í meðförum allsherjarnefndar til að gæta samræmis við þágildandi 9. gr. a laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um að meginregla um greiðslu almannatrygginga væri háð búsetu á Íslandi. Meðlag er hins vegar eðlisólíkt stuðningi ríkisins við fólk sem á rétt til greiðslu lífeyris af hálfu hins opinbera. Foreldrar eru framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum skv. IX. kafla barnalaga til að tryggja sem best hagsmuni barnsins. Það samræmist ekki jafnræðisreglu að mismuna börnum með þessum hætti eftir búsetu. Þá verður ekki séð að innheimta af hálfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé torveldari eftir því hvort móttakandi greiðslunnar er búsettur hérlendis eða erlendis. Þá má einnig benda á að finna má undantekningu á meginreglu laga um almannatryggingar, í 20. gr. þeirra, en samkvæmt því ákvæði er núverandi búseta á Íslandi ekki skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris, en barnalífeyrir er greiddur ef annað foreldra eða bæði eru látin. Börn einstæðra foreldra eru ávallt í viðkvæmari stöðu þegar annars foreldrisins nýtur ekki við. Það er ótækt að meðlagsskyldir aðilar komist hjá því að greiða meðlag nema forsjáraðilinn sjálfur fari í innheimtuaðgerðir, því íslenska ríkið mismunar þessari aðstoð við börn eftir búsetu.

Ég lagði fram, ásamt mörgum öðrum hv. þingmönnum, frumvarp sem ekki lítur út fyrir að verði hægt að flytja hér á þinginu, einfaldlega vegna þess að það er svo aftarlega í númeraröðinni. Þetta eru tvær litlar einfaldar breytingar á barnalögum sem þarf að gera til að tryggja það að einstæðir foreldrar sem eiga börn með Íslendingi eða aðila sem býr á Íslandi geti fengið meðlag. Í dag þarf viðkomandi aðili að fá sér lögfræðing í sínu landi, hafa samband við viðkomandi ríkisstofnun þar og krefjast þess að sú ríkisstofnun, svona eins og innheimtustofnun hér, krefjist meðlags frá viðkomandi aðila á Íslandi. Þetta er hlutur sem kostar hundruð þúsunda ef ekki milljónir í lögfræðikostnað, því miður. Þetta eru ekki margir foreldrar, kannski einhvers staðar á milli 20–30 foreldrar sem búa við þetta, hafa flutt frá Íslandi, stundum kannski til þess að vera ekki í nágrenni við fyrrverandi maka eða aðila sem hefur jafnvel beitt viðkomandi ofbeldi, og býr erlendis, einhvers staðar fyrir utan Norðurlöndin. Það eru fjöldamargir foreldrar, sérstaklega mæður og jafnvel ömmur þessara barna, sem hafa haft samband við mig og spurt hvort við getum ekki fundið leið til að laga þessi mistök. Það er greinilegt að þetta voru mistök hjá nefndinni á sínum tíma að bæta þessu inn. Frumvarpið frá ráðuneytinu var ekki með þetta búsetuskilyrði, því var bætt inn vegna þess að menn héldu að það þyrfti að vera jafnræði miðað við lífeyrisgreiðslur. Þetta er allt annað en lífeyrisgreiðslur. Þetta er hreinlega innheimta frá einum aðila til annars og ríkið er að sjá um að gera þetta.

Mig langar að óska eftir því að hv. nefnd sem er að flytja þetta mál skoði þetta milli 2. og 3. umr, hvort ekki sé hægt að nýta þetta tækifæri þar sem við erum að gera breytingar á þessum lögum til þess að bæta stöðu þessara einstaklinga, örfáu einstaklinga sem eru að lenda í þessu. Til að hv. framsögumaður sé með þetta á hreinu eru breytingarnar og greinargerðin um þetta á þskj. 305. Mig langar að hvetja nefndina til þess að skoða þessi mál.

(Forseti (AIJ): Skildi forseti hv. þingmann rétt að hann óskaði þess að málið gengi til nefndar milli 2. og 3. umr.? (GRÓ: Já.))