Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

auðkenningarleiðir.

849. mál
[14:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka sannarlega fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún sé tímabær og að við þurfum aðeins að girða okkur í brók þegar kemur ekki síst að málefnum fatlaðs fólks, eins og hér hefur verið nefnt og komið inn á. Það er auðvitað ótækt að staðan sé með þeim hætti sem svo margir hafa lýst, líka fyrir nefndum þingsins, og auðvitað ekki eðlilegt að fólki, sem getur ekki bjargað sér sjálft vegna fötlunar, séu allar götur einhvern veginn lokaðar þegar kemur að því að nýta rafræn skilríki.

Af því að ég veit að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur sett af stað starfshóp í þessu máli og ég heyri að ráðherrar eru að vinna saman að þessu, því að þetta er auðvitað óþolandi, þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Nú þekki ég fólk sem er búsett erlendis og búið að vera það í mörg ár, með íslenskt vegabréf. Nú er kominn hálfur mánuður síðan viðkomandi komst loksins inn í Auðkenni en þá stoppaði allt. Þá var lokað á viðkomandi vegna þess að hann reyndi of oft að komast inn og var sagt að það þyrfti að hafa samband við tæknideild. Ég trúi því að ráðherra sé mér sammála um að hálfur mánuður í slíka yfirferð getur vart talist ásættanlegt. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort ráðherra getur upplýst eitthvað um það hvernig svona hlutir ganga fyrir sig.