Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

græn svæði í Reykjavík.

874. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það kemur reyndar ekki á óvart að Sjálfstæðismaður í umhverfisráðherrastólnum leggi áherslu á aðgengi borgarbúa að grænum svæðum. Við Sjálfstæðismenn höfum nefnilega alltaf verið þar. Það er athyglisvert að sjá síðan samanburðinn við stjórnmálamenn úr öðrum flokkum sem klappa sér gjarnan á bakið fyrir græn sjónarmið, klappa sér reyndar á bakið fyrir ýmislegt og allt mögulegt sem enginn fótur er fyrir, en það er nú önnur saga. (Gripið fram í: Ertu að tala um Framsókn? ) Taki til sín sem eiga.

Við ættum að taka öllum hugmyndum um að ganga á græn svæði með miklum fyrirvara. Það er því áhyggjuefni að heyra staðfestingu hæstv. ráðherra á því að áform meiri hlutans í Reykjavík gangi á grænu svæðin okkar, m.a. í Elliðaárdalnum og Laugardalnum, og við Grafarvogsbúar hljótum að hafa áhyggjur af áformum varðandi Grafarvoginn. Þessi staða er í rauninni algerlega óásættanleg og hlýtur að vera einsdæmi í okkar heimshluta. Og af því að ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega um Skerjafjörðinn þá var ótrúlegt að hlusta á stutta yfirferð hans um málið. Þarna verður um að ræða óafturkræf skemmdarverk. Ég tek undir fyrirspurn hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar varðandi aðgerðir hæstv. ráðherra og hreinlega geri þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann grípi þarna inn í til að koma í veg fyrir eitt stærsta umhverfisslys okkar tíma á höfuðborgarsvæðinu.