Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu. Með tillögunni er utanríkisráðherra falið að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til notkunar fyrir særða hermenn og færa úkraínsku þjóðinni. Tillagan er flutt sameiginlega af formönnum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og undirstrikar þá þverpólitísku samstöðu sem ríkt hefur um stuðning við Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst 24. febrúar 2022.

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að brýn þörf sé á færanlegum neyðarsjúkrahúsum fyrir særða hermenn í Úkraínu og að Vólódímír Selenskí forseti hafi sérstaklega óskað eftir stuðningi Íslands í þeim efnum á fundum með forsætisráðherra í Kænugarði 14. mars og í Helsinki 3. maí sl. Slíkt sjúkrahús gagnast særðum hermönnum á vígvellinum en þar væri einnig hægt að sinna almennum borgurum eftir atvikum. Slíkt sjúkrahús væri einnig hægt að nýta eftir að átökum lýkur.

Utanríkismálanefnd leggur áherslu á öflugan stuðning Íslands við Úkraínu og þá ríkjandi stefnu að framlag Íslands til landsins sé hlutfallslega sambærilegt að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum.

Hvað stuðning við Úkraínu varðar hér á vettvangi Alþingis vill sá sem hér stendur vísa til ályktunar Alþingis frá 23. mars sl., um hungursneyðina í Úkraínu, Holodomor, en Alþingi lýsti því yfir að hungursneyðin í Úkraínu, sem stóð yfir frá 1932 til 1933, hafi verið hópmorð. Þó að sú ályktun fjalli um atburði sem áttu sér stað fyrir tæpum 90 árum síðan þá kallast hún á við nútímann að því leyti að slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma geta styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis. Þá skal nefnt að utanríkismálanefnd hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um ólöglegt brottnám úkraínskra barna af hernumdum svæðum rússneska hersins í austanverðri Úkraínu og kemur tillagan væntanlega til umræðu hér í þingsal síðar í vikunni.

Herra forseti. Framsögumaður ítrekar þverpólitíska samstöðu um öflugan stuðning við Úkraínu innan utanríkismálanefndar, hér á Alþingi og í samfélaginu öllu. Nefndin leggur til að tillagan um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Teitur Björn Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þá lýsir Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, sig samþykkan álitinu.