Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[20:05]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með félögum okkar hér á þinginu um að hér er mál þeirrar tegundar sem ber að fagna. Allt litrófið sameinast og allir leggjast á eitt og slík samstaða um málin mætti gjarnan vera daglegt brauð en það er ánægjulegt þegar svo er að allir eru sammála og leggjast á árarnar eins og gert hefur verið, held ég megi segja, í öllu er varðar Úkraínuinnrásina.

Um leið og við lýsum enn og aftur eindregnum stuðningi við málið, formenn allra flokka og þingmenn allra flokka, og eftir því sem ég best veit þá er þetta eitt af því fjölmarga sem gert hefur verið, þingið og ráðuneytin hafa lagst á eitt við margháttaða aðstoð, þá finnst mér rétt að skýra frá að það hafa fyrirtæki líka gert, til að mynda Össur sem hefur lagt heilmikið til af hjálpartækjum af ýmsum toga og hefur gert frá því að stríðið hófst og gerir enn. Við fórum tveir þingmenn á fund forsvarsmanna Össurar fyrir nokkrum mánuðum síðan og hlutuðumst til um enn meira framlag og þetta er eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa litið á það sem sjálfsagðan hlut að veita alla þá aðstoð sem mögulegt er. Svo mun vonandi áfram verða þó að öll eigum við væntanlega þá von sameiginlega að endir verði bundinn á þetta óskaplega stríð svo fljótt sem verða má.

Ég ætla bara að nota tækifærið og vona að þessi samhljóða skilaboð okkar til þeirra sem eiga um sárt að binda verði tíðari hér í þingsal. Um leið og við förum ekki að blanda saman eymd margra sem hér búa þá skyldum við einsetja okkur það að um leið og við veitum mikilvægt framlag til þróunarlanda og við veitum hér, held ég, allt að þúsund manns á mánuði skjól frá ömurlegum aðstæðum, hvort sem það er í Úkraínu eða Venesúela eða annars staðar frá, þá skulum við halda áfram að reyna að ná taktinum í því sem eru sannarlega þörf framfaramál og til stuðnings þeim sem erfiðast eiga með að lifa mannsæmandi lífi hér sem þar.