Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[15:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við Píratar fögnum því að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir bættri geðheilsu landsmanna og við styðjum þær aðgerðir sem áætlað er að ráðast í á næstu árum. Það er mikið af góðri vinnu sem liggur að baki áætluninni en það eru mikil vonbrigði að áætlunin er ekki fullfjármögnuð í fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára. Án fjármögnunar er ljóst að mörg markmið aðgerðaáætlunarinnar munu hvorki koma til framkvæmda né skila tilætluðum árangri. Eins virðist skorta skilning á því hversu áríðandi það er að bregðast við vaxandi biðlistum og geðheilbrigðisvanda sem fyrst. Til dæmis eru einu áformin til að taka á manneklu að efla sérnám geðlækna og geðhjúkrunarfræðinga og fjármagna kandídatsár sálfræðinga, en samkvæmt kostnaðaráætlun ráðuneytisins á ekki að fjármagna að fullu þá aðgerð fyrr en árið 2030. Ég og hv. þingkona Oddný G. Harðardóttir höfum lagt fram breytingartillögu sem flýtir fjármögnun á þeim mikilvæga lið sem við vonumst til að fá stuðning fyrir hér í þessum þingsal. Ég fer betur yfir það í atkvæðaskýringu aðeins á eftir.