Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[15:51]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla að fagna því að við séum komin með þessa áætlun þó að mér finnist, eins og fleirum, dálítið skrýtið að það skuli ekki fylgja henni meiri fjármunir að sinni, en í henni felst ákveðin viðurkenning á því sem ég held að við hljótum öll að vera meðvituð um. Geðheilbrigðismál á Íslandi eru töluvert áhyggjuefni. Um það bil helmingur öryrkja, að okkur skilst, glímir við geðræn vandamál og örorkan felst á geðsviðinu. Þetta hefur verið hálfgert olnbogabarn, því miður, í heilbrigðiskerfinu allt of lengi. Við gætum að mínu viti kannski varið hluta af þessum 200 milljónum til að ráðast strax í rannsókn á því hvað veldur þessum vandamálum sem fara ört vaxandi; og geðlyfjaneysla sömuleiðis með því hæsta sem þekkist í heiminum. Ég fagna því að verið sé að taka þennan málaflokk alvarlega og mun greiða þessu atkvæði. — Jakob segir já.