Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:23]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Málið er brýnt og ég tel að þetta þurfi að ræða. Auðvitað erum við hér með málamyndaplagg þriggja flokka að einhverju leyti þó svo að hæstv. matvælaráðherra sé skrifaðar fyrir því, okkar ágæti matvælaráðherra. En þetta er málamyndaplagg og það kemur örlítið á óvart að við sjáum ekki skýrari línur frá Vinstri grænum hvað þetta varðar af því að hæstv. forsætisráðherra hefur kveðið skýrt á um að það skuli taka á þessum málum. Vissulega höfum við séð það að einhverju leyti, með þeim breytingum sem voru gerðar varðandi forkaupsrétt á landi. En ég held að þetta sé eitthvað sem væri nauðsynlegt að fá opna umræðu um. Var einhver fyrirstaða innan ríkisstjórnarinnar við að taka á þessu máli? Ég er alveg sannfærður um að þjóðin styður að það sé tekið á þessu, það sé ekki þannig að nokkur prósent séu í eigu bresks eða kínversks auðmanns. Þetta er eitthvað sem ég held að allir ættu að vera sammála um því að þetta er auðvitað einnig matvælaöryggismál. Ef við meinum eitthvað með matvælaöryggi þá getum við ekki sætt okkur við það að hér séu ræktarlönd tekin undir einhverja sportveiðimennsku eða frístundabyggð örfárra auðmanna utan úr heimi.