Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[18:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi seinna andsvar hv. þingmanns þá verð ég nú að viðurkenna að það er komið svolítið síðan ég las stefnuskrár allra flokkanna. Ég gerði það þegar ég var að taka ákvörðun um að fara út í stjórnmálin og ákveða fyrir hvaða flokk ég myndi vilja bjóða mig fram. Ég get því ekki rætt stefnur ríkisstjórnarflokkanna í þaula eins og hv. þingmaður virðist geta gert. En ég mundi hins vegar hver seinni spurning hv. þingmanns var í fyrra andsvarinu og hún var um hvort ekki vantaði aðgerðir. Jú, það er þannig að það eru lagðar fram aðgerðaáætlanir eftir að stefna hefur verið samþykkt. Það verður svo sannarlega áhugavert, væntanlega á haustþingi, að sjá aðgerðaáætlun í landbúnaði til nokkurra ára. Ég hvet, líkt og hv. þingmaður, ráðuneytið til þess að vera þar með mælanlegar, tímasettar og, svo við gleymum því ekki, fjármagnaðar aðgerðir til þess að við getum tryggt að við séum á leiðinni í rétta átt í þessari annars ágætu stefnu til næstu 17 ára.