153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:03]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ólíkt öðrum ræðumönnum sem hafa talað hér í dag þá get ég ekki lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp, alls ekki. En um hvað snýst það? Það snýst um að veita mörg hundruð milljónum króna árlega til styrkja á einkareknum fjölmiðlum. Við skulum aðeins huga að því hvað þetta er há upphæð, að þetta er það sem er að fara á einu bretti í þennan fjölmiðlastuðning. Það er hærri upphæð heldur en aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum hljóðar upp á næstu tvö árin. Það er það sem er að fara á þessu ári, við erum að tala um 400 millj. kr. Ég held að það sé rétt að staldra við og spyrja: Er þessum fjármunum vel varið?

Hér hafa ræðumenn gagnrýnt sérstaklega tvo miðla. Ég er ekki sammála hvað þá miðla varðar endilega, en ég held að þeir hafi verið Bændablaðið og Fótbolti.net. Ræðumönnum hefur verið tíðrætt um lýðræðishlutverk fjölmiðla og ég held að það sé rétt að fara aðeins yfir þau mál með gagnrýnum hætti því að mikið af þessum fjármunum er að fara til fjölmiðla sem eiga sykurpabba, eiga hagsmunasamtök eða eru í eigu hagsmunasamtaka sem þjóna mjög þröngum sérhagsmunum. Við getum tekið sem dæmi að einn miðillinn er að fá 67 milljónir sem er sérstaklega að þjóna SFS, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, og það er vandséð oft að málflutningurinn þeirra eigi samhljóm með hagsmunum þjóðarinnar í öllum málum. Með þessu frumvarpi er verið að smyrja ofan á þessa köku 67 millj. kr. árlega vegna tapreksturs.

Ég held að það sé rétt að staldra við lýðræðishlutverkið. Menn hafa verið að tala um það í mjög hástemmdum orðum hvað þetta væri mikilvægt og að fjölmiðlarnir gegni mikilvægu samtali við samfélagið. Það er ekki svo í öllum tilfellum, langt í frá, og jafnvel eru fjölmiðlar sem berjast gegn ríkisstyrkjum, tökum bara Viðskiptablaðið. Þeir eru að fá árlega 25 millj. kr. úr þessum potti en nota síðan þessa fjármuni til að berjast gegn því að aðrir fái ríkisstyrki.

Þetta er auðvitað allt svolítið undarlegt og ég held að menn geti samt sem áður ekki farið frá þessari umræðu til að ræða rekstrarvanda þó þessara fyrirtækja og jafnvel þeirra sem eiga sykurpabba sem styrkja þá til að gefa út málgagnið, og þá verður auðvitað að horfa til Ríkisútvarpsins. Menn tala mikið um að það sé eitthvað sem er nánast hafið yfir gagnrýni. En svo er bara alls ekki og fjárþörf þeirra hjá RÚV hefur farið vaxandi á síðustu árum og auðvitað hafa þeir tekið mikið til sín. Ef menn skoða bara ársreikning stofnunarinnar á síðustu árum þá sést að fjármunirnir sem hafa runnið til RÚV hafa aukist, eða kostnaður vegna stofnunarinnar hefur aukist nánast um milljarð á milli áranna 2021 og 2022. Svo maður fari ekki með neinar ýkjur þá eru þetta um 900 millj. kr. Það sem meira er þá hafa auglýsingatekjurnar á milli þessara ára einnig farið vaxandi, þ.e. um 400 millj. kr. Þannig að sú upphæð sem er verið að styrkja hér einkareknu fjölmiðlanna með, sem eru ekki hafnir yfir gagnrýni, er svipuð og það sem RÚV hefur aukið hlut sinn um á auglýsingamarkaði. Mér finnst rétt að ræða það í hreinskilni hér á hinu háa Alþingi að fara að gíra niður RÚV. Menn tala mikið um öryggishlutverk RÚV. Það er algerlega ofmetið. Það er kominn betri búnaður til að ná til fólks, bara í gegnum GSM-síma, en oft í þessari réttlætingu fyrir þeim miklum fjármunum sem streyma til Ríkisútvarpsins er verið að tala einmitt um öryggishlutverkið. Síðan er það bara þannig að opinber þjónusta sem snýr að öryggismálum er bara komin með sína vefsíðu. Við getum tekið bara vedur.is. Að vísu hefur sá vefur, sem gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki við sæfarendur og vegfarendur og þá sem eru á ferð um landið, nánast ekkert verið uppfærður síðustu 15 árin eða svo. Hann mætti auðvitað uppfæra. En þegar fólk er að skoða þetta öryggishlutverk þá er það ýkt í umræðunni. Fólk fer inn á vedur.is. Fólk getur fengið miklu beinskeyttari og betri varúðarmerki bara í símann sinn ef það er að ferðast um landið. Þannig að ég tel að það sé rétt að skoða þann þátt og auk þess er aðgangur orðinn greiðari að alls kyns upplýsingum. Ef við tökum það sem dæmi þá er með netinu hægt að nálgast skýrslu Ríkisendurskoðunar með beinum hætti, með góðum útdrætti og svona má lengi telja. Það er hægt að fara yfir skýrslur frá Umhverfisstofnun fyrir þá sem vilja nálgast þær með mjög greiðum hætti og það þarf ekki að fara endilega í gegnum einhverja skilju á fréttastofu. Því eru þessir fréttamiðlar og þetta lýðræðishlutverk sem hefur verið lofsungið hér í kvöld of hástemmt. Hvers vegna er það? Jú, ég tel það vera þannig að þeir sem hafa starfa af því að vera atvinnustjórnmálamenn þurfa á þessum miðlum að halda til að spegla sig úti í samfélaginu. Það virðist vera eitthvert samlífi í gangi, að menn strjúki hver öðrum. Það eru þá þeir sem vilja fá góða og fallega umfjöllun og síðan þeir sem vilja fá góð viðtöl og kannski að mögulegum viðbættum ríkisstyrk í einhverjum stuðningi í einhverju formi á hinn bóginn, þó svo að ég telji að þessi upphæð sem hér um ræðir hafi ekki eitthvert úrslitavald hvað það varðar.

En hvað upphafninguna og lýðræðishlutverkið varðar er rétt að spyrja: Hvar voru fjölmiðlarnir t.d. í aðdraganda hrunsins? Voru margir sem fjölluðu um þá stöðu sem var uppi og erlendir fjölmiðlar höfðu varað við? Ég man ekki til þess. Jafnvel fengu íslenskir fræðimenn bágt fyrir sem vöruðu við erlendri skuldastöðu þjóðarinnar. Svo er það auðvitað kerfið sem hefur sært réttlætiskennd þjóðarinnar, þ.e. kvótakerfið. Hefur verið mjög gagnrýnin umræða á RÚV um kerfið? Jú, það voru þættirnir um Namibíu. En hvað varð um fréttamennina í kjölfarið? Fengu þeir stuðning hjá yfirstjórninni? Ekki nægjanlegan a.m.k. því að þeir hrökkluðust meira og minna allir frá ríkisstofnuninni. Ég tel því að þetta samlífi sé ekkert alltaf sérstaklega hollt. Við horfum kannski bara á umfjöllun um núverandi matvælaráðherra. Einhvers staðar hefði það verið frétt ef ráðherra færi algerlega gegn samþykktum flokks síns, bara því sem var samþykkt í mars og flokkurinn kenndi sig við eitthvað grænt, Vinstri grænt, og væri í sömu mund að hleypa hér togskipum með óheftu afli inn á grunnslóðina og fremja mögulegt vistmorð. Einhvers staðar hefði verið gagnrýnið viðtal og viðkomandi ráðherra látinn svara fyrir. Ég minnist þess ekki, frú forseti, að það hafi verið rætt um það. Því tel ég lýðræðishlutverkið hvað varðar RÚV vera stórlega ofmetið og ég held því að þessi lofrulla um fjölmiðlana sem hefur farið hér fram sé svona fullhástemmd miðað við þau efni sem standa til.

Hvað með að öll sjónarmið fái að heyrast í umræðunni eins og er bara greypt í lög um Ríkisútvarpið? Það er ekki alveg svo. Við sáum það t.d. í umfjöllun um orkupakkann að þeir sem voru andvígir samþykkt hans voru hliðarsettir og jaðarsettir í umræðunni. Svo má nefna aðra hópa, t.d. lífeyrisþega. Er fjallað mjög gaumgæfilega um þeirra kjör í fjölmiðlum og t.d. hvernig grimm skerðingaráform og skerðingarreglur koma við þá? Þegar verið er að rétta þeim eitthvað þá er það oftar en ekki tekið til baka og jafnvel árið eftir þannig að það koma upp ákveðin vandræði.

Ég held því að það sé rétt að staldra við þessa upphafningu á fjölmiðlunum og að við beinum auðvitað einnig gagnrýni að þeim. En auðvitað er þetta skiljanlegt út frá því samlífi sem hér á sér stað milli stjórnmálanna og fjölmiðlanna, enda er það svo að það er oft greiðari leið fyrir þá fjölmiðlamenn inn í þennan sal heldur en ýmsa aðra.

Síðan er það fjármögnunin á RÚV, sem ég tel rétt að endurskoða ásamt því auðvitað að draga saman seglin. Þetta er að einhverju leyti steingervingur sem er miklu frekar að blása út ef mark má taka af ársreikningi stofnunarinnar en að dragast saman. Fjármögnunin fer fram með nefskatti sem leggst jafn þungt á smáfyrirtæki, þ.e. lögaðila og einstaklinga. Þá gildir einu máli hvort einstaklingurinn eigi varla til hnífs og skeiðar eða hvort viðkomandi sé auðmaður.

Við í Flokki fólksins erum ekki meðmælt því að fara þessa leið. Stór útgerðarfyrirtæki eins og Samherji greiðir jafn hátt útvarpsgjald og lítil trilluútgerð, og fjölskylda sem er með ungling á heimilinu, kannski eru fjórir á heimili, er að greiða meira heldur en viðskiptabankarnir sem skiluðu 20.000 millj. kr. hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er auðvitað eitthvað sem stjórnvöld ættu að sameinast um en ef maður hlustar á umræðuna hérna í dag þá eru nánast allir sammála um það að fara með mörg hundruð milljónir króna í einhvern stuðning til einkarekinna fjölmiðla í stað þess að draga saman seglin þannig að þessir einkareknu fjölmiðlar nái mögulega vopnum sínum.

Svo maður dragi þetta saman þá er rétt að tala um hlutina eins og þeir eru. Ríkisútvarpið er að vaxa, einkareknu fjölmiðlarnir eru að dragast saman og þegar menn eru að taka upp einhverjar tölur um gríðarlega fækkun þeirra sem starfa hjá fjölmiðlunum þá er auðvitað skýringin að einhverju leyti komin til vegna netsins og tæknibreytinga.

Engu að síður erum við að stefna í ranga átt með því að koma á ríkisstyrkjum og mér sýnist að menn vilji bara festa það áratugi fram í tímann og búa til einhvern fyrirsjáanleika í þessu. En fyrirsjáanleiki á kostnað þess að leggja byrðarnar með meiri þunga á þá sem hafa lægstu launin, eins og útvarpsgjaldið gerir, er ólíðandi. Ég tel líka að þessum 400 millj. kr. sé miklu betur varið til annarra hluta heldur en að styrkja fyrirtæki sem er að einhverju leyti haldið úti af sykurpöbbum sem eru að plægja fyrir sínum afar þröngu hagsmunum.