Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

opinbert eftirlit Matvælastofnunar.

540. mál
[16:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta það að hér er eingöngu verið að samræma gjaldtökuheimildirnar. Hér er ekki verið að heimila sérstaka gjaldskrá. Allt það er til staðar í dag, þ.e. ráðuneyti og MAST geta hækkað gjaldskrána kjósi þeir að gera svo. Ég vil ítreka það að í samráðsgátt var meðfylgjandi útreikningur á gjaldskrá til að sýna fram á hvað þjónustan kostar. Að því höfum við auðvitað öll aðgang og þingmaðurinn getur eflaust orðið sér úti um það. Svo vil ég líka minna á það að þegar gjaldskrá verður lögð fram þá verður hún, eins og gert er ráð fyrir, lögð til samráðs þar sem aðilar geta komið að því og komið að athugasemdum sem þeir kjósa að gera. En það er mikilvægt, af því að þingmanninum er gjarnt að tala um báknið og að það stækki og fitni, að hér er líka verið að tala um að við borgum ekki mismuninn úr ríkissjóði (Forseti hringir.) nema þá að vel athuguðu máli ef við kjósum að gera það frekar en að þeir sem þjónustuna þiggja borgi fyrir hana.