Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra framsöguna. Ég ætla að byrja á að vitna til umfjöllunar í Fréttablaðinu 20. desember 2006 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þetta þarf ekki að koma á óvart. Það voru vissulega efasemdir uppi um að stætt væri á því að hrófla við ákvörðun Kjaradóms, að minnsta kosti hvað varðaði dómara vegna þessa ákvæðis um algjört sjálfstæði þeirra.“

Þessi orð eru í blaðinu höfð eftir Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi formanni Vinstri grænna. Á sömu blaðsíðu er fjallað um það, undir fyrirsögninni „Löggjafinn braut gegn stjórnarskrá“, að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari hafi átt samkvæmt ákvörðun Kjaradóms að fá greidd laun samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dómurinn telji löggjafann hafa brotið gegn sjálfstæði dómstóla og þar með stjórnarskránni. Vissulega er komið inn á þetta í greinargerðinni en mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Fór fram eitthvert sérstakt mat með vísan í þessa uppákomu sem var í lok árs 2006? Sömuleiðis er nú nýfallinn dómur í héraði varðandi aðra launadeilu sem ríkissjóður stendur í gagnvart héraðsdómara og rassskellingar ríkissjóðs hafa verið nokkuð tíðar undanfarið hvað varðar framgöngu gagnvart hinum ýmsu réttindum fyrirtækja og einstaklinga. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í hverju sú greining hafi falist sem varð þess valdandi að tillaga stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherra er með þeim hætti sem hér er, að héraðsdómarar, landsréttardómarar og hæstaréttardómarar falli að fullu undir þessa tillögu um takmörkun á hækkun launa.