Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég vísa til þess sem hv. þm. Bergþór Ólason nefndi í andsvari sínu, hvað varðar dóm frá árinu 2006 sem vitnað er til í greinargerð en á auðvitað við annað lagaumhverfi, svo að því sé haldið til haga. En það er vissulega rétt að úrskurður Kjaradóms var þá felldur úr gildi, Alþingi ákvað að fella úrskurð Kjaradóms úr gildi, og á það reyndi fyrir héraðsdómi varðandi dómara. Í þeim dómi var vísað til þess að löggjafinn hefði með sérgreindum hætti hlutast til um löglega ákvörðun þar til bærs aðila.

Nú erum við auðvitað með annað lagaumhverfi og ástæðan fyrir því, eins og ég rakti hér áðan í fyrra andsvari við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, var sú að eðlilegt þætti að dómarar væru ekki undir sama hatt felldir og aðrir embættismenn ríkisins, þ.e. að ekki færi vel á því að þeir heyrðu undir framkvæmdarvaldið í launasetningu og því falla þeir hér undir ásamt afmörkuðum hópi og þjóðkjörnum fulltrúum. Þar hefur hins vegar nýlega fallið dómur sem snýst reyndar um annars konar mál, sem snýst um ofgreiðslur á launum úr ríkissjóði, þar sem ákveðin mistök urðu til þess að þeir aðilar sem undir lögin féllu fengu greidd meiri laun en ákvæði laganna kváðu á um. Væntanlega er þegar búið að áfrýja því máli því að það er mjög mikilvægt að fá skýr skilaboð frá dómstólum um það hvort ekki sé eðlilegt að gera ráðstafanir ef um ofgreiðslur er að ræða.

Í þessari tilteknu tillögu hér af því að hv. þingmaður spyr — og að sjálfsögðu er búið að fara yfir alla þessa dóma og fleiri til í undirbúningi þessa máls — erum við hins vegar að horfa á aðgerð sem nær yfir allt sviðið. (Forseti hringir.) Ekki verður litið svo á að hún eigi eingöngu við um dómara en ég kem nánar að því í síðara svari.