Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

sjúkraflug.

1061. mál
[12:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir athugasemdirnar sem voru gott innlegg í umræðuna. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra geri ráð fyrir þyrlupalli á eða við spítalann til að tryggja skjótt aðgengi að bráðaþjónustu á Landspítalanum og ræðir ráðherra hér hugmyndir um að koma með þyrlu á Norður- og Austurlandi. Það hefur verið kallað eftir því lengi og það er mín von að við getum hrint því verkefni í framkvæmd sem allra fyrst því að svokallaður viðbragðstími, tími frá því að hringt er og óskað eftir hjálp og þar til viðbragðsaðilar mæta á staðinn, er mjög langur. Veikir og slasaðir hafa þurft að bíða í 84 mínútur að meðaltali eftir sjúkraflugi. Fræðimenn sem rannsaka sjúkraflug segja að til að stytta biðtímann þurfi að koma upp fleiri bækistöðvum fyrir sjúkraþyrlur um allt landið, til að stytta vegalengdir frá sjúklingi og inn á sjúkrahús. Það er í fullu samræmi við það sem hæstv. ráðherra nefndi.

Ég hlakka til að sjá þessa skýrslu sem í vinnslu er og vona að við getum tekið hana til umræðu hér á þinginu því svo sannarlega er tilefni til. Staðreyndin er þó sú að minni heilbrigðisþjónusta um allt land og uppbygging heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum leiðir af sér aukið sjúkraflug. Þetta verðum við að skoða og ákveða hvort raunverulega sé vilji til að halda áfram á þessari braut. T.d. hafa engir skurðlæknar verið yfir hátíðirnar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað og á Ísafirði og því hefði þurft að flytja sjúklinga með sjúkraflugi þaðan. Þetta er einnig staðan yfir sumartímann sem líður nú svo skjótt að, en minni heilbrigðisþjónusta er víða vegna sumarafleysinga og þá er fólk flutt annað í aðgerðir sem annars væri hægt að leysa á staðnum.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar sem sagði: Við þurfum aðgerðir strax, og ég hlakka til að sjá þær raungerast.