Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[18:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingu á almennum hegningarlögum sem gera það refsivert að beita nauðung, blekkingu eða hótunum í viðleitni til að breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu fólks. Pólitískt bakslag í réttindum hinsegin fólks ryður brautina fyrir vaxandi forræðishyggju og afturhaldssemi víða um heim, það er augljóst þegar litið er til þess hverjir eru við stjórnvölinn í þeim löndum sem undanfarið hafa gripið til fordæmalausra árása á hinsegin fólk. Tengslin við pólitíkina eru svo líka augljós þegar litið er til þess hvar þessi afturhaldsöfl hafa ekki erindi sem erfiði. Það er þar sem lýðræðið stendur styrkum fótum, þar sem frelsi og mannréttindi þykja sjálfsagður hluti daglegs lífs allra. Það er þannig samfélag sem Ísland er og ég bind vonir við að við staðfestum það enn og aftur með því að greiða þessu máli atkvæði hér í dag.

Mig langar til að ljúka máli mínu með því að skila enn og aftur þakklæti til hv. allsherjar- og menntamálanefndar fyrir frábæra vinnu og líka til félaga minna, þingflokksformanna allra þingflokka, fyrir drengskap sem þeir sýndu með því að veita þessu þingmannamáli einu brautargengi í samningum nú í vor. Það skiptir miklu máli.