154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:20]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Ég greindi ekki konkret spurningu heldur bara meiri vangaveltur væntanlega um ástandið og ég held að það sé enginn hér inni í þessum þingsal á öndverðum meiði við þá skoðun sem hv. þingmaður kom með. Ég meina að stóra áskorunin, stóra vandamálið og verkefnið sem fyrir okkur liggur núna í vetur og á komandi misserum er að ná niður verðbólgu, ná niður verðbólguvæntingum svo að vaxtastig í landinu geti lækkað, akkúrat til að koma til móts við þá einstaklinga sem hv. þingmaður var að nefna. Ég held að það séu allir hér inni í þessum sal á sama báti hvað það varðar. Ég held að allir átti sig á því að þetta er stóra verkefnið. Um þetta munu fjárlögin snúast og við þurfum að sýna það í þessum fjárlögum. Ég tel að við séum að gera það þannig að ég hef væntingar til þess að við séum á réttri leið með þetta. Ástandið er hins vegar grafalvarlegt. Það er enginn að reyna að breiða yfir það, og misalvarlegt, en hækkun vaxta hér og lána í kjölfarið hefur komið gríðarlega illa niður á mjög mörgum.