154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining MA og VMA.

[10:49]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ástæðan fyrir því að við förum af stað í þessa vegferð er ekki sú að vilji sé til þess að sameina sameiningarinnar vegna, hvorki þá sameiningu sem fyrir norðan er nefnd né aðrar þær sem nefndar eru. Ástæðan er sú að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum þegar kemur að framhaldsskólakerfinu. Það er stóraukin ásókn nemenda, m.a. í starfsnám sem er dýrara nám, stóraukinn fjöldi nemenda af erlendum uppruna, með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn, sem er á leiðinni inn í framhaldsskólakerfið og þarfnast aukinnar stoðþjónustu í sínu námi. Það er stóraukinn fjöldi nemenda sem kemur inn á starfsbrautir og meiri þjónusta sem þarf vegna meiri breytileika þegar kemur að námsárangri þeirra nemenda sem eru að koma inn í kerfið. Þetta kallar á talsvert mikla fjárfestingu í framhaldsskólakerfinu og við höfum metið það svo að sú fjárfesting þurfi að vera á bilinu 3–4 milljarðar til þess að mæta ólíkum þáttum í kerfinu og er það hluti af menntastefnu til 2030 að vinna þessum aðgerðum brautargengi. Í fjármálaáætlun gerum við ráð fyrir því að við höfum 1 milljarð til þessa verkefnis en við teljum ekki að við getum uppfyllt skyldur okkar, lögbundnar skyldur framhaldsskólakerfisins, á næstu árum nema grípa þá annaðhvort til erfiðra aðgerða eins og þeirra sem hv. þingmaður vitnaði til, auk fleiri í kringum landið, eða þá að skapa til þess fjárhagslegt svigrúm. En það er ánægjulegt að sú mikla umræða sem skapast hefur um þessa fyrstu sviðsmynd hefur kallað fram líka þau sjónarmið að við þurfum að fjárfesta í auknum mæli í menntakerfinu og það samtal er í gangi. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á þessa sviðsmynd líkt og aðrar, en ég segi þó og bæti við að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þó að auknar fjárveitingar fáist í framhaldsskólakerfið þá förum við í ákveðna naflaskoðun í kerfinu, förum og greinum það hvað þurfi að breytast og með hvaða hætti til næstu ára, (Forseti hringir.) vegna þess að fjármagn er ekki það eina sem þarf inn í þetta kerfi. Það þarf líka ákveðnar breytingar á því sem ég get kannski rætt í seinna andsvari.