154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining framhaldsskóla.

[11:00]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka aftur það sem ég sagði hér áðan, bæði við hv. þingmann en líka við fyrri fyrirspyrjanda, að það hefur aldrei legið fyrir að sameining sé lögð til sameiningarinnar vegna. Það er hins vegar þannig að við þurfum að skapa svigrúm fyrir þau verkefni sem ég nefndi hér áðan og hef gert það, þau lágu til grundvallar við vinnslu fjármálaáætlunar, liggja til grundvallar þeirri ákvörðun sem lögð er fram hér vegna þess að við þurfum að mæta þessum verkefnum sem fram undan eru. Það er mögulegt að gera það með auknu fjármagni. Það er líka mögulegt að gera það með vinnu innan frá í kerfinu. Það er það sem við lögðum upp með, m.a. vegna þess að það er ekki það fjármagn til ráðstöfunar á næstu árum sem við höfðum gert ráð fyrir að þyrfti til þessa verkefnis. Þess vegna erum við í þessu verkefni. Það er markmið okkar allra að menntakerfið geti sinnt þeim verkefnum sem það þarf að takast á við og þeim áskorunum og þeim breytingum sem eru að verða (Forseti hringir.) og það er skylda mín sem ráðherra að tryggja að það verði með einum eða öðrum hætti.