154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

valkostir við íslensku krónuna.

[13:42]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er að sjálfsögðu alltaf til í samtal um efnahagsmál, um verðbólgu, vexti, verðtryggingu eða ekki verðtryggingu og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spyr út í krónuna og hvort við séum til í að ræða hana. Að sjálfsögðu.

Eitt af því sem við sjáum í íslenskri hagsögu er að kaupmáttaraukning heimilanna hefur verið gríðarleg á síðustu misserum. Við stöndum auðvitað frammi fyrir stórri áskorun sem er þessi verðbólga og ég ætla ekkert að draga dul á að ég hefði viljað sjá hana lækka hraðar en hún hefur gert. Við erum núna að leita allra leiða til þess að stuðla að því að svo megi verða með því að leggja aukna áherslu á neytendavernd, hitta alla sem eru í forsvari fyrir dagvöruverslunina og reyna að skoða hvort það sé eitthvað þar sem gæti stuðlað að því að við fengjum mögulega lægra vöruverð og skoða framleiðni birgja og heildsala í landinu. Allt er þetta gert til þess að veita aukið aðhald og sýna fyrirtækjunum í landinu að við erum að standa þessa neytendavakt.

Varðandi krónuna er það svo að Seðlabanki Íslands gerði á sínum tíma mjög góða úttekt á því hvað myndi henta Íslendingum best í gjaldmiðlamálum. Seðlabankinn var mjög afgerandi í þeirri niðurstöðu sinni að eins og staðan væri í dag hentaði sjálfstæð peningastefna okkur og hún hefði skilað okkur umfangsmiklum ávinningi. Ef við ætlum svo að fara að skoða hvernig framtíðarskipulag peningastefnu á Íslandi eigi að vera þá tel ég að við verðum alltaf að skoða hagsveiflur viðkomandi ríkis og gjaldmiðilinn út frá þeim, (Forseti hringir.) vegna þess að það sem hefur gerst á Íslandi er að hagvöxtur hefur til að mynda verið mun meiri en í löndum Evrópusambandsins og þá hentar sá gjaldmiðill að mínu mati alls ekki íslensku hagkerfi.