154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

endurskoðun viðurlaga vegna vændiskaupa.

[14:14]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra greinargóð svör. Ætlunin til vændiskaupa er hins vegar ekki alvarlegasta brotið sem vændislöggjöfin nær yfir. Gerendur vændis nýta sér aðstöðu þeirra sem ekki eiga annarra kosta völ til að fara fram hjá einu grundvallaratriði í löggjöfinni um kynferðisbrot, sem er frjálst og upplýst samþykki. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja.“

Ef manneskja þarf að fá greitt fyrir kynmök til að umbera þau er ljóst að samþykki er ekki veitt af fúsum og frjálsum vilja. Refsilöggjöfin fjallar um ásetning um kaup á vændi, hvort sem þau kaup eru fullframin eða ekki. Það liggur því beinast við að ásetningur um kaup á vændi sé eitt og kynferðisbrotið sem á sér stað í kjölfarið, gangi kaupin eftir, sé annað.

Mig langar því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún hafi skoðað málin út frá þeirri nálgun að þarna sé um tvö aðskilin brot að ræða, vændiskaup annars vegar og kynferðisbrot í framhaldinu hins vegar, og hvort hún viti hvort slíkt hafi verið kannað innan réttarkerfisins.