154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:16]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga og aðgerðaáætlun. Það er mjög mikilvægt að svona plagg sé gert og við tökum þessa umræðu og allt það samráð. Ég held að mesta vinnan og ávinningurinn felist kannski í undirbúningi að skjalinu og því samtali og stefnumótun og upplýsingaöflun sem fer fram við það.

Við fyrsta lestur á þessu finnst mér þetta bara vera margt mjög gott en það sem ég er kannski að fagna hér og ástæðan fyrir því að ég tek til máls undir þessum lið er til þess að fjalla um nokkur atriði varðandi málefni sveitarfélaganna og byggða landsins kannski fyrst og fremst, af því að það er mikilvægt fyrir okkur hér á Alþingi að ræða reglulega hvernig við treystum byggð í landinu og náum þessum markmiðum sem eru hér sett fram í framtíðarsýn og meginmarkmiðum og þar held ég einmitt að „Innviðir mæti þörfum samfélagsins“ sé eiginlega lykilsetningin og þurfi varla að segja mikið meira. Ef við náum að byggja upp alla okkar grunninnviði, sem eru þá fyrst og fremst samgöngur og orkuinnviðir, sem sagt bæði í heitu og köldu vatni og rafmagni og fjarskiptum, ef þetta er í lagi þá leysist ansi mikið af því sem á eftir kemur af sjálfsdáðum og svo erum við líka með aðra grunninnviði. Þetta eru hinir fýsísku innviðir sem ég fór yfir og svo ef við erum með öflugt heilbrigðiskerfi um allt land, menntun og löggæslu en við tryggjum öryggið og menntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu þá munu sveitarfélögin og sérstaklega byggðir landsins og fólkið í byggðunum sjá um það að gera sveitarfélögin sjálfbær, að byggja upp öflugt atvinnulíf, fjölga störfunum.

Samgöngur eru t.d. eitt besta jafnréttistækið þannig að við erum að ná þannig jafnréttismálunum. Við erum með þessum innviðum þá að tryggja aðgengi að þjónustu óháð búsetu og aukna stafræna umbreytingu og lengi mætti telja og náttúrlega að byggja undir búsetufrelsið. Ég vildi bara koma hér og leggja áherslu á það að við missum ekki augun af mikilvægi þess að byggja upp öflugar samgöngur hringinn í kringum landið. Það truflar mig oft hvað umræðan fer oft í að það sé verið að verja háum fjárhæðum í fámennar byggðir og fyrir fáa. Það er nefnilega ekki þannig. Við erum að verja fjármunum í öfluga samgönguinnviði til að tryggja öll þessi markmið sem eru hér og þannig leysum við út gríðarlega mikil verðmæti. Það verður hagkvæmara að nýta auðlindir landsins og flytja vörur úr framleiðslunni þannig að það er hringinn í kringum landið þar sem við erum að nýta auðlindir með orkuöflun, sjávarútvegi, ferðaþjónustunni, náttúrunni, framleiða hér matvæli í öllum landbúnaðarhéruðunum og lengi mætti telja. Svo út úr þessum auðlindanýtingargreinum og framleiðslugreinum sprettur fullt af hugviti sem er svo orðið útflutningsvara í fjölmörgum fyrirtækjum sem stofnast hringinn í kringum landið og við þekkjum, og þá náttúrlega fyrst og fremst í sjávarútvegi en líka fleiri atvinnugreinum og við eigum ómæld tækifæri óleyst þarna. Því skiptir miklu máli að byggja allar byggðir landsins og að það sé gert í gegnum öfluga innviði.

En til þess að byggja upp þessa atvinnu og auka þessa verðmætasköpun þurfum við náttúrlega að fara í aukna orkuöflun. Stór partur af þessum atvinnutækifærum hringinn í kringum landið sem eiga að auka framleiðslu og útflutning þessarar þjóðar, sem á að standa undir þeirri velferð sem við viljum öll búa við og auka jafnt og þétt, byggist á því að við höfum næga orku í því. Þar eru bara óteljandi verkefni og allflest kalla á einhvers konar orkunotkun sem við viljum hafa græna og innlenda.

Fjarskiptin hafa verið að byggjast upp og það hefur bara sýnt sig með mörgum dæmum hvað það hefur skipt verulega miklu máli að hafa öflugar fjarskiptatengingar sem hafa hjálpað fólki að búa þar sem það vill, sem sagt búsetufrelsi, en um leið líka að vera staðsett þar sem hugvitið er að koma út úr atvinnugreinunum. Við sjáum það t.d. í sjávarútveginum hringinn í kringum landið hvernig verið er að fullvinna sjávarafurðir og framleiða tæknibúnað sem gagnast í sjávarútvegi og er svo fluttur út um allan heim. Þetta getum við gert í orkunni og landbúnaðinum alveg klárlega líka, þurfum að byggja undir það.

En líka varðandi hina grunnþættina sem ég fór inn á — tæknin getur hjálpað okkur að auka heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið. Um leið, til þess að geta tekið á móti t.d. ferðaþjónustunni, sem er að skapa útflutningsverðmæti og annað, verður líka öflug heilbrigðisþjónusta að vera til staðar. Því megum við ekki gleyma þegar við erum að fjalla um þetta, enn og aftur ekki að horfa bara á íbúatölurnar af því að á stöðum þar sem eru skráðir 70 íbúar eru kannski 2.500 virkir GSM-símar á hverjum einasta degi af fólki sem er virkt, er að taka þátt í einhverju „activity“, er að keyra um í bílum, ganga á fjöll eða taka þátt í siglingum og öðru slíku. Það eru miklu fleiri að nota þá innviði sem eru hringinn í kringum landið heldur en bara þeir sem akkúrat eru skráðir þar með búsetu. Menntunin skiptir gríðarlega miklu, að það sé fjölbreytt menntun og að það sé hægt þá að bregðast við nýju atvinnulífi og breytingum á atvinnulífinu, að menntunin mæti því. T.d. má nefna dæmi frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, þar sem Vatnajökulsþjóðgarður er og mikil fjallaferðamennska. Þeir ætluðu að setja þessa námsgrein af stað og það passaði ekki inn í kassann hjá stjórnvöldum, inn í hinn ríkisrekna framhaldsskólakassa, og því var erfitt að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins með nýrri námsbraut og það er ekki gott. Það sýnir sig að ef menntunin stendur til boða í heimabyggð þá er líklegra að fólk sæki í menntunina og þá er líklegra að það nýti þá menntun í þau tækifæri sem eru í því umhverfi, þau sækja í sitt umhverfi sinn innblástur til að nýta sína menntun í nýsköpun og þróun og rannsóknir og annað slíkt. Svo þarf öllum að líða þannig að það sé raunverulegt búsetufrelsi, sé raunverulegt lýðræði og til að fólk vilji búa í umhverfinu þarf það að búa við öryggi og því er mikilvægt að þar sé öflug löggæsla og öflugt viðbragð neyðaraðila allra saman og allt helst þetta í hendur.

Því held ég að við hérna vinnum að sjálfsögðu að öllum þessum góðu markmiðum sem eru í þessari þingsályktunartillögu en við þurfum alltaf að hafa fókusinn, þegar við ræðum forgangsröðun opinbers fjármagns, á þessa grunninnviði hér. Það leysir svo mörg önnur verkefni og áskoranir sem við erum að takast á við hér í störfum okkar.