154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[13:14]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Að sjálfsögðu er þetta mannréttindamál. Samkvæmt þingskapalögum heyrir það að sjálfsögðu undir allsherjar- og menntamálanefnd sem fjallar um mannréttindamál. Þetta frumvarp er mannréttindamál frá upphafi til enda. Þetta er mannréttindamál í dag og það verður mannréttindamál þegar búið er að samþykkja lögin. Það er hins vegar vafi á því hvort þessi stofnun sem frumvarpið fjallar um starfi á vegum Alþingis eða ekki. Það er breytan í þessu máli. Þannig á þetta mál ekki heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um málefni Alþingis og stofnana þess. Þessi stofnun er ekki orðin stofnun Alþingis fyrr en búið er að samþykkja lögin, svo einfalt er það. Þetta er mannréttindamál. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fjallaði um það áðan hvað væri rétt niðurstaða. Það verða væntanlega greidd atkvæði um þetta en það er ekki þar með sagt að meiri hlutinn hafi rétt fyrir sér. Þetta er mannréttindamál og á heima í allsherjar- og menntamálanefnd og það skiptir engu máli hvað þingmeirihlutinn segir um það. Ég tek undir orð hæstv. forsætisráðherra: Að sjálfsögðu er þetta mannréttindamál.