154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samfylkingin trúir ekki á töfralausnir, að ég geti komið hérna upp og útskýrt á einni mínútu hvernig eigi að útrýma fátækt á Íslandi — (Forseti (ÁLÞ): Tvær mínútur.) — tveimur mínútum eða hvað það nú er. Áfram heldur hv. þingmaður að tala um sérstöku uppbótina sem hífði lágtekjufólk, allra tekjulægsta fólkið í almannatryggingakerfinu, upp fyrir fátæktarmörk í byrjun hrunsins og, eins og kemur fram í þessari skýrslu, dró úr lágtekjuhlutfalli þessara hópa. Við höfum talað fyrir því að dregið verði úr tekjutengdum skerðingum í lífeyriskerfinu, m.a. með því að innleitt verði sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur gagnvart þeirri sérstöku framfærsluuppbót sem er enn þá til staðar í örorkulífeyriskerfinu.

Hvað sagði hv. þingmaður aftur fleira? (GIK: Hvernig ætlið þið að ná börnum úr fátækt?) Með réttlátri skattheimtu og sterkum tilfærslukerfum, með sömu aðferðum og er beitt á öðrum Norðurlöndum til að styðja við barnafjölskyldur. Heldur hann að það sé tilviljun að 4.000 heimili sem stefndi í að dyttu út úr vaxtabótakerfinu um síðustu áramót fengu stuðning? Nei, það var vegna breytingartillögu sem Samfylkingin fékk í gegn í þingsal með markvissri vinnu, ekki með því að leggja fram 50 frumvörp — (Gripið fram í: 63.) — 63 frumvörp um allt sem manni dettur í hug hverju sinni. (Gripið fram í.) Já, við erum bara ósammála í grundvallaratriðum um hvernig eigi að taka á fátækt, hvernig eigi að beita velferðarkerfunum okkar til þess að taka á fátækt. Við erum ósammála þeim leiðum sem Flokkur fólksins, flestum þeirra — (Gripið fram í.) — stundum leggið þið eitthvað gott til og þá lýsum við yfir stuðningi við það. (Forseti hringir.) En í grundvallaratriðum eru þetta tveir mjög ólíkir flokkar með ólíka sýn á velferðarkerfið okkar og það er ágætt að það komi skýrt fram í þessari umræðu. (IngS: Guði sé lof.)