154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir þetta andsvar. Frábært. Jú, ég get ekki verið meira sammála. Ég er ekki á móti öllum skerðingum, alls ekki. En grundvöllurinn hjá mér er þessi: Byrjum ekki að skerða fyrr en við höfum komið fólki upp úr fátækt. Ég var öryrki áður. Auðvitað fæ ég ekki örorkubætur í dag. En öryrki sem færi út á vinnumarkað fengi að vinna fyrir einhverja ákveðna upphæð án skerðingar. Þá myndi ég segja: Ókei, byrjum að skerða hann þegar hann er kominn í miðgildi tekna í þeirri vinnu. Spáið í það. Þá er hann ekkert að græða meira en sá sem er við hliðina á honum. Hann er samt með sína fötlun og kannski aukinn lækniskostnað, lyfjakostnað og annað. Síðan vil ég að lokum segja í sambandi við búsetuskerðingar. Bæði erlent og íslenskt fólk hefur lent í þeim. Við gerðum mjög vel í því að hækka ellilífeyri hjá þeim sem hafa lent í búsetuskerðingum en við lækkuðum þá um 10%. Við settum þá á 10% minna en aðra þjóðfélagsþegna á Íslandi og við settum á þá krónu á móti krónu-skerðingu. Ég held að við eigum að taka okkur saman og breyta því. Ertu ekki sammála því?