154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að segja eitt varðandi borgaralaun. Hugmynd að borgaralaunum væri líklega skynsamlegast að útfæra á Íslandi með persónuafslætti, að greiða hann út til þeirra sem nota hann ekki og hækka hann upp í einhverja lágmarksframfærslu. Hugmyndin með borgaralaunum — hvort sem þú gerir það gegnum persónuafsláttarkerfið, sem hentar okkur vel vegna þess að við erum með þannig kerfi, eða eins og annars staðar í heiminum þar sem þetta er greitt út mánaðarlega — er að þeir sem þurfa ekki á þessu að halda muni alltaf greiða þetta til baka gegnum skattkerfið. Þetta væri upphæð sem færi aldrei til þeirra sem þurfa ekki á henni að halda. Þetta snýr að því að það þarf að endurskoða skattkerfið okkar og sníða það öðruvísi. Það hentar okkur sérstaklega vel að horfa á þetta út frá persónuafsláttarkerfinu þar sem það er þegar til staðar. Við þyrftum að gera breytingar á því þannig að hægt væri að greiða út til þeirra sem nýta ekki persónuafslátt. Þetta myndi sérstaklega gagnast ungu fólki. Svo væri hægt að hækka persónuafsláttinn í skrefum og fylgjast vel með áhrifum sem það hefur. Þetta er ein hugmynd.

En það sem ég hef kallað eftir lengi, og hef verið ótrúlega spennt að sjá, er að við rannsökum þessa möguleika í íslensku samhengi. Nú er verið að gera tilraunir úti um allan heim og það eru mismunandi aðstæður og skattumhverfi í mismunandi löndum. En þetta hefur aldrei verið skoðað almennilega miðað við íslenskar aðstæður og hvernig okkur hentar að gera þetta. Það er útfærsla sem ég vildi að yrði skoðuð. Samfélagið er að breytast rosalega hratt, sjálfvirknivæðing starfa og annað, og við vitum ekkert hvaða áhrif það hefur. Mér finnst að við þurfum að vera tilbúin, meira að segja til að skoða lausnir sem gætu virst útópískar í dag. Við þurfum að skoða það svo að við verðum með einhvers konar plan ef við þurfum á því að halda. Svo gæti þetta mögulega verið ákvörðun. Við viljum kannski nýta okkur það að fólk þarf ekki að vinna jafnmikið. Kannski viljum við setja þetta á af því að allt í einu eru tæknibreytingar, og samfélagið sýnir okkur að það sé ekki þörf á því að við mannfólkið vinnum jafnmikið og við gerum, og við viljum minnka það og breyta tilfærslukerfum.