154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:31]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að við förum að huga raunverulega að því vandamáli sem er fátækt. Í því skyni getum við ekki bara horft til þess hvaða tekjur við fáum. Vissulega eru tekjur stór þáttur í því hvernig fólki reiðir af. Ef við skoðum hvernig tekjur og verðlag hafa hins vegar þróast undanfarið ætti sá samanburður að segja skýrt að fátækt ætti varla að vera til. En sá árangur sem meðaltöl gefa til kynna fyrir almenning skilar sér bara ekkert alltaf. Ef við skoðum þróun tekjutíundanna blasir það við að lægri tíundirnar hækka minna þannig að þó að meðaltalið hækki skilar það sér bara ekki jafnt til allra. Þegar ég og margir minna jafnaldra stigum okkar fyrstu skref á húsnæðismarkaði var það sannarlega ekki auðvelt. Að vinna fyrir afborguninni var meira en að segja það. Svo tók það næstu mánuði að borða seríós í kvöldmat eða pasta með tómatsósu. En þegar fólkið sem nú er að stíga sín fyrstu skref kvartar yfir því að þetta sé eiginlega ómögulegt fara margir minna jafnaldra að benda á að þetta hafi alltaf verið erfitt. Það er engin spurning að þetta hafi alltaf verið erfitt, en er erfitt áður sambærilegt við erfitt núna? Vantar okkur mögulega erfiðleikavísitölu til að bera þetta tvennt saman?

Ef við skoðum þróunina frá því í janúar árið 2000 hefur vísitala neysluverðs hækkað mikið, eða þrefaldast. Á sama tíma hafa laun fimmfaldast. Nokkuð góður árangur, ekki satt? Hvað með húsnæði? Jú, húsnæði hefur á þessum tíma sjöfaldast. En var þetta ekki bara hækkunin fyrir hrun? Nei, þróunin er búin að vera jöfn og þétt með nokkrum stórum stökkum. Síðan 2020 hefur húsnæði hækkað um 51%, laun um 34%, verðlag um 27%. Það munar ansi miklu. Og meðan við tökumst ekki á við vandann sem liggur í húsnæðisverðinu mun þetta bara verða verra og munurinn verða meiri. Setjum þetta í smá samhengi. Í miðbænum í Reykjavík var nýlega auglýst til sölu 133 m² hæð og ris á 90 milljónir. Ef við prófum að leiðrétta þetta verð miðað við að húsnæðisverð hefði fimmfaldast eða hækkað jafn mikið og laun þá hefði þessi íbúð verið sett á 64 milljónir. Í febrúar árið 2000, þegar það var svo sannarlega erfitt að kaupa sér íbúð, var svo auglýst til sölu hæð og ris á Grettisgötunni í Reykjavík á 11,3 milljónir.

Ég held að það sé óhætt að segja að erfitt í dag sé sannarlega erfiðara en það var áður. Fólkið sem er núna að reyna að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn þarf ekki að borða seríós á sófanum. Það getur leyft sér flottari mat. Munurinn er sá hins vegar að við borðuðum seríós á sófanum í íbúðinni okkar, eitthvað sem æ færri eiga möguleika á að gera. Það hvort fólk býr í eigin húsnæði er það sem gefur oft best til kynna hvernig því reiðir af. Staðreyndin er sú að fólki dugar oft lægri tekjur til að hafa það fínt sem býr í eigin húsnæði en því sem er á leigumarkaði. Það fólk sem er á leigumarkaði er síðan mun líklegra til að þurfa að flytja og býr ekki við sama húsnæðisöryggi og það fólk sem býr í eigin húsnæði. Ótal rannsóknir sýna að sífelldir flutningar hafa slæm áhrif á fólk og sérstaklega börn. Það er síðan hitt að vitanlega ætti það að vera raunhæfur valkostur að vera á leigumarkaði, að það fólk sem kýs það frekar en að skella sér í þær skuldir og skuldbindingar sem fylgir því að vera með eigið húsnæði ætti að geta búið við sama öryggi og aðrir. Við höfum bara ekki gert neitt til þess að svo sé. Til að svo verði þarf að gera ráðstafanir í lögum og reglugerðum til að tryggja það, sem tryggja að fólk sem kýs að vera á leigumarkaði geti búið við sama húsnæðisöryggi og þau sem kjósa og geta búið í eigin húsnæði. Þetta er bara eitthvað sem við verðum að gera, sérstaklega í ljósi þess að við erum eiginlega búin að útiloka nýliðun á húsnæðismarkaði. Æ fleiri eignir eru nú í eigu leigufélaga en ekki einstaklinga og æ fleiri eiga fleiri en eina eign.

Við getum hvorki borðað meðaltöl né búið í þeim. Við getum ekki leyft húsnæðisverði að halda áfram að þróast með þessum hætti. Það vefst ekki fyrir leigufélögum sem sýna methagnað ár eftir ár að kaupa upp það húsnæði sem er hinum almenna launþega með öllu ómögulegt. Við verðum að svara þessari spurningu: Hvernig á fólk að geta búið hér? Ef forsendan fyrir því að hafa það gott á Íslandi er að eiga eigið húsnæði, finnst okkur líklegt að fólk velji það eins erfitt og það er að kaupa húsnæði? Við verðum líka að horfa til þess að sögulega hefur húsnæði verið leiðin til að færa verðmæti milli kynslóða. Þessi þróun lokar að miklu leyti fyrir þann möguleika. Fátækt er margþættur vandi og við megum ekki falla í þá gryfju að einblína á einn þátt. Við verðum að taka til greina stóru hlutina sem afkoma fólks byggir á.