154. löggjafarþing — 19. fundur,  24. okt. 2023.

fátækt kvenna.

[13:40]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tek undir óskir til kvenna á kvennaverkfallsdeginum í dag en líka til okkar allra; karla, kvára og allra annarra.

Hv. þingmaður kemur hér inn á málefni sem snúa að þeirri baráttu sem við erum að heyja í dag en við erum líka að heyja alla aðra daga, þ.e. það baráttumál að draga úr launamun kynjanna, að draga úr kynbundnu ofbeldi og að horfa til þess með hvaða hætti við getum gert enn þá betur sem samfélag heldur en við gerum í dag. Það er samt staðreynd að Ísland stendur sig sem betur fer vel í alþjóðlegum samanburði. Ríkisstjórnin sem núna er hefur lagt sérstaka áherslu á barnafjölskyldur, m.a. með því að hækka barnabætur og láta þær nýtast fleirum. Við höfum lagt áherslu á þau sem minna hafa, t.d. í gegnum húsnæðisbótakerfið og að styðja við örorkulífeyrisþega og eldra fólk í þeirri dýrtíð sem núna stendur yfir. Ég held að eitt af því sem við verðum að horfa til er síðan með hvaða hætti megi brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og þar verða sveitarfélögin að koma miklu sterkar inn í heldur en þau hafa gert. Það er mjög stórt jafnréttismál og stórt mál að þessu leyti.

Hv. þingmaður spyr líka um heilsubrest kvenna. Eitt af því sem við erum að vinna að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er einmitt heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu þar sem við erum að horfa á snemmtæka íhlutun inn í veikindi þannig að við getum frekar komið í veg fyrir að fólk detti út af vinnumarkaði og að við grípum það betur inni í endurhæfingu þegar það hefur dottið út af vinnumarkaði og það á ekki síður við um konur.