154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

7. mál
[16:21]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, fyrir þessa tillögu vegna þess að hún sýnir hvernig flokkur Miðflokkurinn er, sem er hefðbundinn, stjórnlyndur vinstri flokkur sem ætlar að stórauka ríkisútgjöld í kerfi með aðferðum sem eiginlega er bara hægt að rekja aftur til Jónasar frá Hriflu. Það er líklega þaðan sem allar hugmyndirnar eru.

Mig langar til að spyrja þingmanninn, vegna þess að hann hefur oft svona hnýtt í okkur Sjálfstæðismenn um að vera ekki nægjanlega miklir hægri menn: Hvað í þessum tillögum getur talist til hægri? Hefur hann kostnaðarmetið þessar tillögur? Og í ljósi þess að þegar maður skoðar tillögurnar og líklega meira en helmingur tillagnanna felur í sér stórfelld ríkisútgjöld, aukin ríkisútgjöld: Hvar ætlar hann að finna tekjurnar sem eiga að fara í þessi útgjöld og hvernig hyggst hann fjármagna það?