154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

fjárlög og aðgerðir gegn verðbólgu.

[10:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það hvort breytinga sé að vænta við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins, hvort hæstv. fjármálaráðherra muni leggja hönd sína á frumvarpið með því að koma með breytingartillögur við 2. umræðu.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um útgjaldavanda. Hvernig ætlar hún að taka á þessum útgjaldavanda sem hún talaði um? Við í fjárlaganefnd fengum að heyra að það væri lífsstílsverðbólga þegar við fengum inn einn aðila frá hægri kantinum í íslensku samfélagi. Við skulum fara aðeins yfir þessa lífsstílsverðbólgu. Hvernig ætlar fjármálaráðherra að berjast gegn verðbólgunni? Hvernig ætlar hún að beita ríkisfjármálunum í baráttunni gegn verðbólgu? Í dag eru stýrivextir 9,25%. Í landi fyrir austan okkur hefur tekist að ná tökum á verðbólgunni með 4,25% stýrivöxtum. Í hvaða aðgerð ætlar hæstv. fjármálaráðherra að fara til að bæta kjör húsnæðislántakenda sem eru að sligast undan þessum stýrivöxtum, undan vaxtastiginu í landinu? Og hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem hafa orðið fyrir gríðarlegri kjaragliðnun á undanförnum árum og er einungis boðið upp á 4,9% hækkun á bótum almannatrygginga á næsta ári? Og síðast en ekki síst: Hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að bregðast við þeim vanda sem íslenskir bændur eru í? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að verja fjölskyldubúið sem framleiðslueiningu í hefðbundnum landbúnaði; í sauðfjárrækt og hjá mjólkurbúum landsins? Það var talað hér áðan um gríðarleg sóknarfæri en staðreyndin er sú að það blasir við fjöldagjaldþrot hjá bændum ef ekkert verður að gert.

Það verður að koma með raunhæfar tillögur í 2. umræðu fjárlaga fyrir bændur, fyrir aldraða og öryrkja og fyrir húsnæðislántakendur í þessu landi sem eru gjörsamlega að sligast undan fáránlega háu vaxtastigi í landinu.