154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni og öllum þingmönnum sem hér hafa talað fyrir þessa góðu umræðu og þátttökuna. Ég saknaði þess nú samt sem áður að sjá engan fulltrúa Miðflokksins í þessari umræðu. Það er greinilega ekkert sem þeim liggur á hjarta hvað það varðar.

En mig langaði að nefna nokkrar staðreyndir í sambandi við stöðu eldra fólks. Burt séð frá því hvað það eru margir aldraðir sem hafa það gott, þá er staðreyndin sú að 11.000 eldri borgarar búa hér við fátækt, þar af 6.000 í neðstu tekjutíundinni, sem setur þá í sárafátækt. Staðreyndin er líka sú að það eru hátt í 100 eldri borgarar sem eru fastir inni á Landspítala af því að það er ekkert sem grípur þau þrátt fyrir að þau séu tilbúin til útskriftar. Þetta er dýrasta legurýmaúrræði sem til er í landinu og þannig hefur þessi ríkisstjórn kosið það að spara aurinn og fleygja krónunni. Það er líka staðreynd svo ekki verður um villst að þrátt fyrir góðar yfirlýsingar um hitt og þetta þá er staðan bág hjá þúsundum eldri borgara. Staðreyndin er sú að áður en þúsundir þeirra hafa fengið að njóta þess að átta sig á því sem hæstv. ráðherra hefur verið að boða hér, að hér sé gott að eldast, þá verða þau gengin til feðra sinna. Það þolir enga bið að taka á málaflokki þar sem þúsundum er ekki bara haldið í fátækt heldur í félagslegri einangrun og vanlíðan. Það er löngu tímabært að tekið sé utan um vilja löggjafans, Alþingis Íslendinga, ásamt atkvæði hæstv. ráðherra sjálfs þann 13. júní 2021, þar sem við samþykktum hér einróma, löggjafinn sjálfur, að setja á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Að lokum vil ég bara minnast þess að þegar ég var fyrir austan um daginn þá kemur það í ljós að þeir eldri borgarar sem eiga stórar eignir og vilja selja þær og fara í minna hafa þurft að flytja frá heimili sínu, frá sveitarfélaginu sínu í annað sveitarfélag, því að þeim mæta engin búsetuúrræði.