154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.

53. mál
[14:01]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í sjálfu sér ekki hér upp til þess að beina spurningu vegna þessa máls heldur finnst mér bara ástæða til að gera mér ferð upp í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við þetta góða mál sem ég held að sé ekki bara lyftistöng fyrir það samfélag sem þarna er, heldur sé það mikilvægt fyrir okkur öll að þetta sé byggt á þeirri miklu og góðu þekkingu sem safnast hefur saman þarna og að hún sé efld. Ég veit sjálfur allt um vættir. Ég bý með álfum sem hrekkja mig á hverjum degi með því að fela fyrir mér alls konar ótrúlega hluti, t.d. símann minn daglega, þannig að ég fagna því að þeir séu rannsakaðir og hvað þeim gengur eiginlega til. En að öllu gamni slepptu þá er þetta mjög mikilsverður þáttur í íslenskri menningu sem við kannski gerum ekki alltaf nógu hátt undir höfði að mínu mati. Þetta er ekki síður mikil mikilvægur partur af okkar trúarlífi en hefðbundin kristin trú í biblíulegum skilningi. Þetta er kannski svona íslensk kristni sem lýsir sér í náttúrutrú og er afleiðing af mjög nánu sambýli okkar við náttúruna. Mér finnst það til fyrirmyndar að þessari grein íslenskrar menningar sé lyft og henni gert hátt undir höfði. Ég tel að þetta mál sé gott og ég vona að það fái brautargengi.