154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[11:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er almenningi að þakka að við stöndum hér í dag að ræða þessa tillögu með það fyrir augum að samþykkja ákall Alþingis um vopnahlé á Gaza, aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og fordæmingu á stríðsglæpum fyrir botni Miðjarðarhafs. Með samþykkt texta þessarar ályktunar myndum við skýra afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi, þökk sé almenningi sem hefur mótmælt fyrir utan þetta hús, fyrir utan ríkisstjórnarfundi, á viðburðum og með því að senda þinginu og ríkisstjórninni skýr skilaboð um að hjáseta er ekki í okkar nafni, skilaboð um að það er ekki nóg að gera hlé á sprengjuregninu til þess að íbúar Gaza fái smá mat og halda svo áfram að drepa fólk í þúsundatali. Mannúðarhlé er ekki nóg. Við þurfum vopnahlé strax. Almenningur hefur sent okkur skilaboð um að það er ekki nóg að segja að auðvitað þurfi ísraelsk stjórnvöld að virða alþjóðleg mannúðarlög á meðan svonefndar aðgerðir þeirra þurrka út heilt þorp af börnum á hverjum degi. En þetta gerir alþjóðasamfélagið kinnroðalaust. Það horfir upp á blóðbaðið, það horfir upp á stríðsglæpina og það situr hjá, rétt eins og Ísland sat hjá. Það er þrýstingi frá almenningi að þakka að við stöndum hér í dag og hættum að sitja hjá.

Forseti. Gaza er á stærð við höfuðborgarsvæðið. Fólkið sem þar býr getur hvergi farið. Sprengjum rignir alls staðar, líka á svæðum sem Ísraelsher hefur beint almennum borgurum að flýja til. Öll landamæri eru lokuð. Allar flóttaleiðir eru lokaðar. Ísrael hefur áhrif á meiri hluta innviða á Gaza. Þeir hafa lokað á vatn, rafmagn, eldsneyti og að mannúðaraðstoð komist inn á svæðið frá alþjóðlegum mannúðarsamtökum. Heilbrigðiskerfið er hrunið, innviðir eru horfnir, hálft Gaza hefur verið jafnað við jörðu. Skortur á vatni og rafmagni hefur nú þegar ýtt af stað farsóttum og fólk deyr sem annars hefði verið hægt að bjarga. Palestínskir læknar þurfa nú að framkvæma aðgerðir án deyfingar við ljós frá símanum sínum á börnum, á óléttum konum sem þurfa keisaraskurð — án deyfingar. Ísraelsher segist gefa Palestínumönnum viðvörun áður en þeir sprengja. En hvert á fólk að fara? Sprengjum rignir alls staðar á Gaza. Hvert á fólk í öndunarvélum eða krítísku ástandi að fara? Hvert eiga nýfædd börn sem eru á vökudeild vegna erfiðleika að fara? Hvert eiga þungaðar konur að fara?

Forseti. Stöðugar loftárásir Ísraelshers gera það að verkum að ekki er hægt að leita að fólki sem er fast í rústunum. Á þeim fjórum vikum sem hafa liðið frá árásum Hamas-samtakanna á óbreytta borgara Ísraels þar sem 1.400 voru myrt og 200 tekin í gíslingu er talið að um 10.000 Palestínumenn hafi látið lífið og af þeim a.m.k. 4.000 börn. Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að þjóðarmorð Palestínumanna sé yfirvofandi og lýsa því afdráttarlaust yfir að árásin á Jabalia-flóttamannabúðirnar hafi verið stríðsglæpur, árás sem hæstv. utanríkisráðherra vildi alls ekki kalla árás á flóttamannabúðir heldur árás á Hamas með óhóflegum mannfalli óbreyttra borgara. Forseti. Árás á sjúkrabíla, árás á spítala, árás á skóla, árás á fjölbýlishús, árás á flóttamannabúðir, árás á húsakynni Sameinuðu þjóðanna, árás á blaðamenn, árás eftir árás á saklaus börn. Þetta eru ekki árásir á Hamas, virðulegi forseti. Þetta eru stríðsglæpir sem nú stendur til að fordæma af hálfu Alþingis. Þökk sé samstöðu almennings erum við loksins að fara að kalla eftir því að vopnahléi verði komið á.

Ég lít svo á að með samþykkt þessarar tillögu sé þingið að gefa hæstv. utanríkisráðherra skýr fyrirmæli um að snúa frá hlutleysi, að snúa frá veikri ósk um að stutt hlé verði gert á sprengjuregninu sem nú þegar hefur lagt hálfa byggðina í rúst og taka upp þá afstöðu sem þingið gefur út hér, skrifað niður í texta sem er öllum aðgengilegur. Nú skuli kalla eftir tafarlausu vopnahléi, fordæma árásir á flóttamannabúðir, árásir á sjúkrabíla, árásir á spítala, árásir á skóla, árásir á fjölbýlishús, árásir á húsakynni Sameinuðu þjóðanna, árásir á blaðamenn, árás eftir árás á saklaus börn. Sýna umheiminum að palestínsk líf skipta máli, að þau séu ekki bara tölur á blaði, að þau séu ekki bara óhóflegt mannfall óbreyttra borgara, að þau sé fólk rétt eins og fólkið sem ráðherra hefur nú þegar réttilega harmað að hafi verið myrt af hálfu Hamas í Ísrael.

Öll líf skipta máli, virðulegi forseti, og þegar staðan er eins og hún er nú, þegar viðvörunarbjöllur hringja um að þjóðarmorð sé yfirvofandi, þá ber okkur ekki aðeins siðferðisleg heldur einnig þjóðréttarleg skylda til að bregðast við og koma í veg fyrir þann skelfilega glæp gegn mannkyni sem þjóðarmorð er. Ég vona af öllu mínu hjarta, virðulegi forseti, að þessi ályktun Alþingis sem sameinar alla flokka á þingi megi verða til þess að við bregðumst ekki þessum skyldum okkar.