154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum ákaflega lánsöm að hér hafi byggst upp borg eins og Reykjavík. Lítil borg, vissulega, en með flest það sem miklu stærri borgir hafa upp á að bjóða. Hún hefur verið brjóstvörn þessa litla lýðveldis í því að halda fólki á þessu landi og laða nýja íbúa að. Þetta er ólíkt því sem hefur átt sér stað í nágrannaríkjunum Grænlandi og Færeyjum þar sem þetta hefur ekki gerst og brottflutningur fólks, sérstaklega menntaðs fólks og yngra fólks, hefur verið mun meiri en hér. Það er þó engu að síður svo, að við höfum misst fólk að jafnaði á nánast hverju einasta ári frá lýðveldisstofnun. Á þessari öld hafa aðeins verið fjögur ár, þar af tvö í Covid, þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar hafa flutt til Íslands en frá því. Þetta sýnir okkur að björninn er engan veginn unninn og minnir okkur á að hlúa að borginni okkar sem og landsbyggðunum.

Ég vil taka fram að þegar ég tala um borgina okkar er ég ekki bara að tala um sveitarfélagið Reykjavíkurborg heldur allt höfuðborgarsvæðið, en eins og staðan er í dag telur það um 250.000 manns, drjúgan meiri hluta landsmanna. Það er því ánægjulegt að sjá að verið er, á vegum innviðaráðuneytisins, að vinna að borgarstefnu sem hefur það markmið að stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, verði efld og styrkt, svo vitnað sé í það sem sagt er á vef Stjórnarráðsins, með leyfi forseta. Þar er talað um að þessari vinnu verði lokið í árslok og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr henni. Hópurinn er vel mannaður þó að hugsanlega virðist áherslan, ef miðað er við fulltrúana í hópnum, vera á sveitarfélagið Reykjavík, en þarna er ekki að finna leiðtoga neinna annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Það er hins vegar lykilatriði fyrir borgarsamfélagið hér að við lyftum okkur eins mikið og mögulegt er yfir sveitarfélagamörkin á höfuðborgarsvæðinu og hugsum um það sem eina heild þar sem öll hverfin, allir borgarhlutarnir, taki jafnan þátt í t.d. félagslegri þjónustu við íbúa svæðisins og við séum ekki með svæði innan borgarinnar sem eru stikkfrí í þeim efnum eins og raunin er í dag.

Að lokum langar mig að nefna stöðu Akureyrar sem héraðshöfuðborgar á Norðurlandi. Það er orðið tímabært að við breytum skilgreiningu Akureyrar úr bæ í borg, því það er hún. (Forseti hringir.) Hún er hin borgin á Íslandi. Ef við skilgreinum hana sem slíka þá eflum við sérstöðu hennar og hlutverk sem mótvægi við búsetu á höfuðborgarsvæðinu, byggð í landinu öllu til heilla.