154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:07]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég var ekki að ýja að því að hv. þingmaður styddi ekki aðgerðir gagnvart börnum, bara svo ég ítreki það. Í fyrsta lagi er veiki hlekkurinn sá að það er erfitt að kortleggja þetta og erfitt að koma hlutum af stað þegar stjórnsýslan í sveitarfélaginu er með þeim hætti sem hún er, þegar allt samfélagið er í áfalli, þegar allt samfélagið er að glíma við rýmingu, allir þeir aðilar sem eru daglega að halda utan um einstaklinga og fjölskyldur og vinna með börnum í frístund, í skóla og öllum þessum þáttum. Það er erfitt að koma hlutum af stað þegar þannig er. Að sú vinna komist af stað — við sjáum og finnum á Grindavíkurbæ í dag að það er kominn miklu meiri slagkraftur í hlutina heldur en var í gær og í fyrradag. Síðan er það áfallið og þetta þjónusturof við börnin sem við verðum að grípa fyrst inn í og þá sérstaklega gagnvart viðkvæmustu hópunum. (Forseti hringir.) Það þarf að vera það sem við sameiginlega nýtum núna slagkraftinn í að ná utan um.