154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[17:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni kærlega fyrir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt, ekki aðeins fyrir Alþingi heldur hvert og eitt okkar og auðvitað samfélagið allt, að þingið sé vel upplýst um það sem er að gerast í Grindavík og á vettvangi íbúa Grindavíkur á þessari stundu. Umræðan í gær með hæstv. dómsmálaráðherra var líka mjög mikilvæg fyrir okkur og ég veit að þessu verður fylgt eftir á næstu dögum og að þingið mun verða upplýst um það sem er að gerast.

Ég er aðeins búinn að eiga orðastað við ráðherrann um þá hluti sem standa fyrir dyrum í Grindavík og snúa að börnum og ungmennum þar í bæ og um það mikla verkefni sem fram undan er, að tryggja hag þeirra og menntun og að enginn heltist úr lestinni á meðan við erum að reyna að fóta okkur og rykið er að setjast. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt núna að við gefum öllum svigrúm. Það þurfa allir svigrúm. Það er mikið áfall fyrir barn að missa heimilið, missa skólann sinn og tengingarnar við félagana. Börn þurfa að ná áttum með foreldrum sínum, með ömmu og afa og vera nærri fjölskyldunni.

Þetta segi ég vegna þess að þetta hef ég upplifað sjálfur. Það eru reyndar 50 ár síðan ég stóð nákvæmlega í þessum sporum, að þurfa að yfirgefa skólann minn og sjá suma skólafélagana ekki fyrr en mörgum árum seinna. Það voru auðvitað aðrar aðstæður í fjölmiðlum þá og í því hvernig haft var samband á milli fólks en það er klárlega gríðarlega mikilvægt það svigrúm sem börnin þurfa að fá til að festa rætur á nýjum stað og að nýr staður verði framtíðartímabundin lausn og það verði ekki fyrr en þá sem börnin fara að sækja skóla og kynnast nýjum skólafélögum og taka þátt í lífinu í nýju umhverfi sem er framandi og þau enn með hugann við gamla skólann sinn, við félagana og það líf sem áður var.

Það kom fram í ræðu hér áðan að það þarf að tryggja íþróttastarfið og ég heyri það strax að margir hafa áhyggjur af því að það splundrist. Ég man vel eftir því í Eyjum að t.d. æfði ÍBV knattspyrnu í Keflavík, eða reyndar í Njarðvík, og leikmennirnir áttu heima hér alveg frá Þorlákshöfn og upp á Akranes og úti um allar trissur og það var farið til Keflavíkur eða Njarðvíkur á hverju kvöldi til að æfa knattspyrnu.

Við skulum leggja ofuráherslu á það að börnin fái svigrúm til þess að átta sig svolítið sjálf á því hvernig þau vilja nálgast þessi verkefni. Það er hlutverk okkar sem stjórnum og þeirra sem eru úti á vettvangi, fólksins sem munu bera ábyrgð á þessu í enda dagsins, að taka á móti þeim þegar þau verða tilbúin og búa þeim það atlæti sem er þeim fyrir bestu og að við gerum það á þann hátt að við getum verið stolt af því. Það mun auðvitað fylgja því einhvers konar brölt. Fólk er að flytja á milli húsnæða núna. Það er að koma sér fyrir hjá Stínu frænku uppi í Árbæ, fær svo íbúð í Vesturbænum eða inni í Vogahverfi og það er best að börnin fari í skólann þar sem framtíðarhúsnæði finnst. Einhverjir verða á Suðurnesjum en auðvitað er fólk að tínast út um allt land. Ég var að útvega fólki íbúð í Eyjum í gærkvöldi og öðrum sumarbústað uppi í Holtum í fyrrakvöld og svo stendur íbúð undir Eyjafjöllum öðrum til boða, þannig að fólk er að fara út um allt og við erum öll að aðstoða og hjálpa til.

Þessu fólki öllu fylgja börn sem eru að takast á við ný verkefni um leið og sorgin hefur komið harkalega aftan að þeim, mjög harkalega. Ég er ekki alveg viss um að við öll áttum okkur á því hvað þetta geta verið þung spor fyrir þau. Þess vegna er svo mikilvægt að við sem erum hér í þinginu, með ráðherrann í broddi fylkingar og hann með sitt fólk úti um allt, starfsmenn Grindavíkurbæjar og okkar besta fólk, að við treystum því til þess að gera það sem best er fyrir börnin og koma þeim til náms að nýju. En það liggur ekkert rosalega mikið á, eins og kom fram í ræðu áðan, við vitum aldrei hvað það mun kosta ef við flýtum okkur of hratt. Gefum svigrúm, leyfum rykinu að setjast og tökum síðan til óspilltra málanna, sem ég veit að allir eru að gera á þann hátt sem best er. Við óskum Grindvíkingum og ykkur öllum guðs blessunar.