154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Að einhverju leyti voru tíðindi morgunsins jákvæð um að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%, ekki síst vegna þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesskaga. Mörg okkar hefðu viljað sjá lækkun stýrivaxta en sýnum ákvörðuninni skilning og þökkum fyrir að þeir hækkuðu þó ekki. Það er brýnasta mál efnahagsstjórnarinnar að ná niður verðbólgunni. Hún bítur okkur öll en þó mest þau efnaminni í samfélaginu. Hér hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að tryggja að hagstjórnartækin tali saman, þ.e. ríkisfjármálin og þau verkfæri sem Seðlabankinn hefur. Í tekjubandorminum sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er til að mynda lagt upp með 3,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við forsendur tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins. Það er ekki raunhækkun á milli ára og lóðbeint til að styðja við hagstjórnina. Hér er hið opinbera að gera sitt. Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, að hvert sveitarfélagið á fætur öðru kynni nú gjaldskrárhækkanir sínar fyrir næsta ár, sem eru frá 5,5% upp í allt að 10%, ásamt því að einstaka liðir eins og skólamáltíðir eru að hækka um allt að 20%, og af því berast fréttir að til standi að öll stærstu sveitarfélög landsins hækki gjaldskrá sína milli ára, þar með talið á grunnskólaþjónustu? Þessar hækkanir koma langverst niður á þeim sem verst standa og geta vart talist vera í ætt við félagslegt réttlæti.

Virðulegur forseti. Til að ná niður verðbólgunni verðum við að róa í sömu átt. Ég get ekki séð að sveitarfélögin séu að gera það með sínum gjaldskrárhækkunum og hvet þau til þess að taka þátt í mótvægisaðgerðum gegn verðbólgu.