154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

dreifing starfa.

453. mál
[17:33]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átta mig á því og skil það sem svo að við skiljum þetta með sama hætti, þ.e. afmörkunin í tillögunni sjálfri kveður ekki endilega á um akkúrat þetta, að þetta gæti hugsanlega orðið afleiðingin í framhaldi af því að fyrir liggi gögn sem hægt verður að leggja til grundvallar frekari ákvarðanatöku. Í því samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann. Í allra síðasta kafla greinargerðarinnar um upplýsingar um landfræðilega dreifingu starfa segir, með leyfi forseta, „gætu gagnast fagaðilum sem vegna starfsemi sinnar, eða skyldu að lögum, vinna að fjárfestingum og ákvarðanatöku á sviði samgangna og byggðaþróunar.“ Má í ljósi þessa skilja greinargerðina með tillögunni og mögulega orð hv. þingmanns þannig að gögn sem yrðu til í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu gætu gagnast okkur, þá kannski hinu opinbera þegar kemur að forgangsröðun fjármuna hins opinbera varðandi uppbyggingu á innviðum, þ.e. hvar liggur hinn raunverulegi fjöldi í notkun innviðanna?