154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sjúkrahúsinu á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar.

384. mál
[17:45]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka fyrir þetta mál sem verið er að flytja hér í dag og þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans ræðu hér áðan og hans prýðilegu útskýringu og góðan rökstuðning fyrir því hvers vegna þetta mál ætti að njóta brautargengis á Alþingi Íslendinga. Eins og þingmaðurinn benti á er Akureyri auðvitað ekki einn af allra stærstu bæjum landsins ef við horfum bara á fólksfjölda í sveitarfélögum. Þingmaðurinn benti réttilega á að Akureyri er sjötti stærsti bær landsins og þar af leiðandi kannski ekki sjálfgefið að sá bær njóti einhverrar sérstakrar forgjafar þegar kemur að hlutum eins og hér er um rætt. En þingmaðurinn benti líka á stöðu Akureyrar sem hinnar borgarinnar, vil ég segja, á Íslandi. Ég talaði um það einmitt í ræðu í síðustu viku að það er verið að vinna borgarstefnu núna á vegum innviðaráðuneytisins þar sem sérstök áhersla er lögð á Reykjavík annars vegar og á Akureyri hins vegar og verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Mér skilst á þeim sem standa að henni að það verði skil á þeirri vinnu í febrúar eða mars á næsta ári, það tafðist reyndar aðeins, það átti að vera núna í lok ársins.

Bonsai-borg er auðvitað frábært nafn en Akureyri er auðvitað meira en Bonsai-borg, hún er valkostur á Íslandi við höfuðborgarsvæðið en hingað, eins og þingmaðurinn benti svo vel á í sinni ræðu, hefur safnast meira og minna öll þjónusta við landið allt og það er alveg spurning hvort það er æskilegt. Auðvitað er gríðarlega gott fyrir okkur Íslendinga að eiga stóra og merkilega og mikla og góða borg sem er viðspyrna fyrir þjóðina og kemur í veg fyrir það að við missum fólk í stórum stíl til útlanda. Hér getur fólk fullnægt draumum sínum og þrám á svipaðan hátt og það getur gert í borgum erlendis og Reykjavík hefur vissulega upp á flest það að bjóða sem við sjáum í góðum borgum í kringum okkur. En það hefur Akureyri líka. Akureyri hefur upp á ótrúlega margt að bjóða og ég held að það sé mikilvægt að við hlúum að því og viðurkennum það í raun og ég nefndi það í minni ræðu hér í síðustu viku að það væri viðurkennt með þeim hætti að kalla Akureyri sínu rétta nafni, þ.e. borg, Akureyrarbær verði Akureyrarborg.

Þetta mál sem hér er til umræðu er auðvitað liður í því að styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri sérstaklega og það í sjálfu sér er gott markmið vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir okkur hér á Íslandi að hafa fleiri en eitt sjúkrahús sem getur tekið á móti bráðatilfellum eins og þarna er verið að tala um, ekki síst líka í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur hér inni og annars staðar um stöðu Reykjavíkurflugvallar og það svæði sem hugsanlega mætti nýta undir byggð í Reykjavík ef ekki væri sú krafa á þessu svæði að standa undir heilbrigðisþjónustu við allt landið. Það er auðvitað ekki raunhæft markmið að svo verði ekki, að það verði byggður upp einhver spítali annars staðar á landinu sem getur keppt við Landspítala að stærð og gæðum. En engu að síður þá er liður í því að auka öryggi landsmanna að Sjúkrahúsið á Akureyri geti a.m.k. tekið við bráðatilfellum sem ekki er hægt að koma akút til Reykjavíkur og það er auðvitað eðli málsins vegna helmingurinn af landinu sem er nær Akureyri en Reykjavík.

Hæstv. forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og lýsa ánægju minni með þetta því að eins og þið heyrið á mínu máli þá tel ég að þetta litla mál, eða svona, þessi stutta setning sem þarna er, sé liður í miklu stærra og mikilvægara máli þegar kemur að því að halda þessu góða landi okkar öllu í byggð og veita þennan valkost sem Akureyri er og á að vera og getur verið við borgríkið hér á suðvesturhorninu.