154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

82. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ný samgönguáætlun gengur mikið út á umferðaröryggi, eins og hv. þingmaður veit sem situr ásamt mér í umhverfis- og samgöngunefnd. Ný samgönguáætlun gengur mikið út á öryggi í umferð, á sjó og á flugvöllum. Öryggishugtakið er raunverulega mjög leiðandi. Það eru tvö hugtök sem hafa kannski verið mest notuð yfir slys í umferðinni. Annars vegar hefur bara verið talað um fjölda óhappa óháð umferðarmagni. Þetta hefur svolítið verið í umræðunni á Íslandi en almennt þar sem er verið að bera saman umferðaröryggi og slysatíðni, þar sem er bæði verið að taka tillit til óhappa og slysa í umferðinni, hafa nú, held ég, flestir hugsað þetta þannig að taka milljón ekna kílómetra til að fá einhver tölfræðileg viðmið, gera þetta hlutlægara til að meta umferðarhlutann í því. Mér finnst það vera mjög rétt leið. Auðvitað getur líka bara verið gríðarleg umferð á ákveðnum svæðum og það getur verið mjög hagkvæmt og mikilvægt að fá þá vegi fram. En það er líka mikilvægt að hafa hina leiðina sem sýnir raunverulega þegar hver og einn er að keyra á vegunum hvað sá kafli er hættulegur. Maður getur bara fundið það hjá sjálfum sér hvar þessir kaflar eru, eins og ég kom inn á í þessu máli varðandi planleguna, blindhæðir, beygjur og annað, breidd vegarins, öryggissvæði fyrir utan, sem hefur mikið að segja. En þetta er nákvæmlega sama og það sem hv. þingmaður talaði um þegar ég er að tala um Húnavallaleiðina, sem er hættulegasti kaflinn á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er akkúrat þessi Húnavallaleið þar sem á að taka út versta kaflann í umferðinni og fækka slysum um tíu, tólf á ári. Það er mikilvægt að halda þessu öllu til haga.