154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum væntanlega seinna þetta sem í íslenskri þýðingu heitir aðlögunarkerfi við landamæri vegna kolefnis. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það liggur alveg fyrir að þetta fyrirkomulag hefur nú þegar haft þau áhrif að íslensk skipafélög eru að minnka sína losun. Til þess er leikurinn gerður.

Af því að hv. þingmaður vísaði í þessa þriðju gerð, sem ég náði ekki að minnast á í fyrra andsvari, þá eru þetta breytingar á kröfum um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun skipafélaga, sem er nú þegar til staðar en er uppfærð og myndi ég ekki ætla að það væri pólitískt stórt mál. Stóra málið er að verið er að koma á fyrirkomulagi, við getum sagt hvatakerfi eða hvað það er, með það fyrir augum að fyrirtæki keppi á jafnræðisgrundvelli en verði með hvata til þess að minnka losun. Þegar t.d. munu koma allra handa tæknilausnir — þetta er bæði hvati til þess að fara í tæknilausnir, ef við tökum það dæmi, og þegar þær koma verða þær mjög eftirsóknarverðar. Til þess er leikurinn gerður. Við þekkjum þetta náttúrlega vel. Þetta heita orkuskipti og við Íslendingar erum búnir að fara í gegnum fyrstu og önnur orkuskiptin og sjáum ekki eftir því. Þegar við erum búin að fara í gegnum þriðju orkuskiptin eigum við, ef við höldum rétt á spilunum, að geta orðið sjálfum okkur næg um orku; íslenska, endurnýjanlega orku. Það verður góður dagur.