154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[18:57]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að ávarpa hv. þingmann sem fer hér í stóru og smáu með sína söguskýringu á fortíðinni. Ég ætla ekki að gera honum það til geðs að elta ólar við hans lýsingu á þessu. Hann verður að eiga það við sig. Ég get sagt mína sögu einhvers staðar annars staðar en ætla að reyna að halda mig við efnisatriði málsins sem við erum að ræða, sem er jú ekki rammaáætlun eða afgreiðsla á henni, eða hvaða einstaka hv. þingmenn hafa þvælst fyrir í því máli, og frábið mér svona söguskýringar og ávirðingar í garð einstakra ráðherra VG, sér í lagi ef þeir eru ekki einu sinni hér til að svara fyrir sig.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að hann dregur fram umræðuna um rammaáætlun, ferli sem er ætlað að gæta jafnvægis á milli verndar og nýtingar. Af ástæðu erum við þar og hv. þingmaður kom réttilega inn á ágreining sem sumir myndu segja að hafi logað í samfélaginu stafnanna á milli vegna einstakrar ákvörðunar um Kárahnjúkavirkjun. Eins og við þekkjum er hluti af þessu ferli að tryggja lýðræðislega aðkomu og skoðanaskipti fólks og þá spyr ég hv. þingmann: Þegar um málefnalegar athugasemdir er að ræða, eins og ég vil meina að sé þegar fólk yfir höfuð tjáir sig um einstaka mál, á þá að keyra áfram sama hvað, alveg sama hvernig er í pottinn búið? Hv. þingmaður talar um að við séum komin í þessa stöðu og hann hafi varað við því en það blasir við okkur hinum sem fylgjumst með og hlustum á umræðuna að ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta sérstaka mál er vegna væntrar lágrar stöðu í lónum á hálendinu, sömu lónum og veita okkur alla jafna það vatn sem framleiðir X mikið af raforku í senn. En við eigum jafn mikið að gera ráð fyrir því að upp geti komið þessar aðstæður í samfélaginu eða í náttúrunni að lónin fyllist ekki með þeim hraða sem vænt er. (Forseti hringir.) Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Er það ekki hin spurningin? Er ekki full ástæða til þess að gera ráð fyrir því í öllum útreikningum að sú staða geti komið upp sem hér skapast?