154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:32]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að þetta sé nú kannski ekki alveg einhlítt. Hv. þingmaður segir: Við ætlum að reiða okkur helst á raforkuna til að ná kolefnishlutleysinu. Það að ná tökum á loftslagsmálunum snýst líka um að tryggja bindingu og draga úr losun, draga úr losun eins og við lifandi getum. Það gerum við ekki bara með því að skipta út jarðefnaeldsneytinu. Það eru margir aðrir losunarþættir í samfélaginu sem við þurfum að vinna á. En rafmagnið er sannarlega eitt af því sem getur komið í staðinn fyrir það. Ég held ég hafi svarað hv. þingmanni hér áðan með það að ég er sammála því, já, að kerfið þarf að vera þannig úr garði gert að það stuðli að því að við getum nýtt raforkuna þar sem þarf að nota hana. Við getum til að mynda framleitt inn á kerfið og kerfið sé þá í stakk búið að taka við því þar sem það á við og til að mynda liggja fyrir einhverjar hugmyndir og/eða fýsilegir kostir. Við getum tekið dæmi í kringum Blöndu og Blönduvirkjun, þar eru tveir kostir sem ekki er hægt að ráðast í einfaldlega vegna þess að kerfið getur ekki tekið við þeim. Við hv. þingmaður þekkjum auðvitað þetta dæmi mjög vel. Þannig að ég er sammála því, já, en ég bara ítreka að það er einhver ástæða fyrir því að það er fyrirstaða og ég segi ekki ég held, ég veit það að tími nautslegra og svívirðilegra bragða í því að reyna að fá fólk á eina sveif er bara löngu liðinn. Samfélagið vill það ekki og sem betur fer eru teikn um allt aðra aðferðafræði hjá þeim sem véla með þessi mál og ég þakka fyrir það. Ég held því að við séum ekki að horfa upp á önnur 20 ár í þessu, svo ég segi það við hv. þingmann.

En ég ætla samt að enda hérna á öðru, af því að hann talaði hér í löngu máli í fyrra andsvari um að vindorkan gæti skapað gríðarleg tækifæri. Það má vel vera að það sé rétt. En við vitum líka að hún getur skapað gríðarlegar ógnir. Við skulum ekki gleyma því þegar við fáum það mál til umræðu þegar að því kemur í þinginu. En við erum ekki að ræða það hér og ég ætla ekki að fara út í þá sálma.